Uber bannað vegna nauðgunarmáls

Uber.
Uber. AFP

Stjórnvöld í Delhi á Indlandi bönnuðu í dag alla starfsemi leigubílafyrirtækisins Uber eftir að farþegi sakaði bílstjóra á vegum fyrirtækisins um nauðgun.

Uber hefur legið undir harðri gagnrýni eftir að konan steig fram á dögunum og sagði bílstjórann hafa nauðgað sér. Bílstjórinn hefur áður verið sakaður um líkamsárás og nauðgun og segja fjölmiðlar á svæðinu að fyrirtækið hafi vanrækt að kynna sér manninn sem sat í fangelsi í nokkra mánuði vegna gruns um nauðgun á árinu 2012. Var hann hins vegar sýknaður af ákæru um efnið og því sleppt.

Öll þjónusta á vegum fyrirtækisins er nú bönnuð í Delhi frá og með deginum í dag. Bílstjórinn var handtekinn í gær og er í haldi lögreglu auk þess sem hann var sviptur ökurétti.

Fóru ekki að lögum

Konan sem varð fyrir árásinni er á þrítugsaldri og starfar sem yfirmaður í fjármálafyrirtæki. Hún var á leið heim út kvöldmat ásamt félögum sínum þegar hún dottaði í bílnum. Konan sagði lögreglu að hún hefði vaknað þegar búið var á leggja bílnum á afskekktum stað. Þar réðist maðurinn á hana og nauðgaði en að því loknu keyrði hann hana heim til sín og lét hana úr bílnum. Þrátt fyrir að bílstjórinn hótaði að myrða hana ef hún myndi leita til lögreglu tók hún mynd af bílnúmeri bílsins og lét lögreglu vita.

Að sögn lögreglunnar í Delhi hefur Uber ekki farið að þeim reglum sem gilda um leigubílaþjónustur í borginni. GPS tæki var ekki í bílnum líkt og lög gera ráð fyrir og nægra upplýsinga hafði ekki verið aflað um bílstjórann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK