Alþýðusambandið ekki eitt við stjórnvölinn

Ná þarf sátt við millitekjuhópa á vinnumarkaði um hækkun lægstu launa, ef ekki á að ýta undir launaskrið upp allan launastigann. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, fyrrum framkvæmdastjóri SA og félagsmálaráðherra.

Hann er gestur í nýjasta þætti Dagmála þar sem rætt er um stöðuna á vinnumarkaði, viðræður SA og ASÍ auk þeirra áhrifa sem hamfarirnar í Grindavík eru að hafa á stöðu ríkissjóðs og hagkerfið.

„Um þessa launastefnu þarf að vera einhver sæmileg sátt. Alþýðusambandið eitt og sér getur ekki tekið ákvörðun um að launastefnan skuli vera áhersla á lægstu launin án þess að hafa eitthvað samráð við millitekjuhópana ef launastefnan á að ná fram að ganga. Við þekkjum það bara af raun að ef það er ekki sátt um það hjá millitekjuhópunum að þá er  bara búinn til þrýstingur bæði í gegnum kjarasamninga og á markaði á eftir sem leiðir bara til meira launaskriðs en ella,“ segir Þorsteinn.

Nýtt bandalag stéttarfélaga reynir að semja við SA en þungt …
Nýtt bandalag stéttarfélaga reynir að semja við SA en þungt hljóð hefur verið við samningaborðið undanfarnar vikur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ábyrgðin liggur víðar

Hann hafnar því að atvinnurekendur séu þeir einu sem hafi stjórn á mögulegu launaskriði í efri lögum vinnumarkaðarins.

„Og það má ekki gleyma því að hluti af launaskriðinu liggur í kjarasamningsbundnum hækkunum eins og starfsaldurshækkunum, menntunarhækkunum og svo mætti áfram telja. Þannig að þetta er ekki bara ábyrgð atvinnurekenda.“

Ekki búandi við núverandi vaxtastig

Hann ítrekar að það sé mikið til þess vinnandi að ná hagfelldri niðurstöðu í kjarasamningana sem nú stendur fyrir dyrum að klappa saman. Aðeins með því að halda aftur af óhóflegum launahækkunum sé hægt að ná böndum á verðbólgu og þar með hávaxtaumhverfinu sem við búum við í dag.

„Við verðum að horfa á þetta sameiginlega en ég vona að við náum einhverri skynsamlegri lendingu í þessu í þessari lotu. Því sú staða sem við erum í í dag, þar sem helst er fasteignamarkaði til trafala og það gefur auga leið að við getum ekki verið í 10% stýrivaxtaumhverfi án þess að það hafi grafalvarlegar afleiðingar,“ segir Þorsteinn.

Viðtalið við Þorstein má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK