Húrra Reykjavík og Brutta Golf sameina krafta sína

Björn Þorláksson framkvæmdastjóri Húrra, Ágúst Freyr Hallsson, Styrmir Erlendsson og …
Björn Þorláksson framkvæmdastjóri Húrra, Ágúst Freyr Hallsson, Styrmir Erlendsson og Sindri Jensson. Ljósmynd/Brutta Golf

Nú um áramótin síðastliðin var undirritaður samningur þess efnis að fataverslunin Húrra Reykjavík komi inn í eigendahóp Brutta Golf, en Brutta hefur undanfarið árið rutt sér til rúms hér á landi með skemmtilega nálgun á golffatnað og menningu.

Brutta er hugarburður Reykvíkingsins Styrmis Erlendssonar en hann hóf að hanna og framleiða fatnað undir nafninu Brutta Faccia árið 2018. Styrmir lauk nýlega námi sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands. Undanfarin ár hefur golf átt hug hans allan og Brutta tók stefnuna á golffatnað í kjölfarið.

Virkilega spennandi fyrir Húrra

„Þetta er virkilega spennandi fyrir bæði Húrra & Brutta, ég þekki mjög vel til Stymma eins og hann er kallaður og eingöngu af góðu. Stymmi er einstakur karakter og mjög fær í öllu sem viðkemur grafík auk þess sem hann hefur skemmtilegt sjónarhorn á golfið.

Stefnan er að selja vörur Brutta í Húrra, halda golfmót og aðra tengda viðburði ásamt því að endurvekja Brutta Faccia sem götufatnað. Þá mætast Brutta Golf & Brutta Faccia á golfvellinum sem og utan hans, á brautinni og gangstéttinni,” sagði Sindri Jensson annar eigenda Húrra.

Skemmtilega óþroskað vörumerki

Húrra Reykjavík var stofnað árið 2014 og fagnar því 10 ára afmæli um þessar mundir, fyrirtækið rekur verslun á Hverfisgötu 18A í Reykjavík þar sem bæði má finna herra- og dömudeild.

Í eigendahóp Brutta er fyrir ásamt Styrmi, Ágúst Freyr Hallsson en þeir Styrmir eru æskuvinir úr Árbænum. Að sögn Styrmis er mjög spennandi að fá Húrra inn í eigendahópinn.

„Það eru allir farnir að þekkja Húrra á Íslandi og víðar jafnvel. Brutta er skemmtilega óþroskað vörumerki og því mikil verðmæti fólgin í því að fá inn þekkingu frá Húrra og að hafa Húrra sem sölustað. Við Áki erum mjög ánægðir með liðsstyrkinn og sjáum fram á mjög skemmtilega tíma. Við spilum allir golf og þeir sem spila golf vita hversu ávanabindandi það getur verið, svo sá áhugi bindur okkur saman,” sagði Styrmir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK