Hér er stutt myndskeið frá heimsmeistaramótinu á Hawaii 2009.
Keppni byrjar á sundinu þegar hleypt er af skoti. Hérlendis hefur sundið eingögnu farið fram í sundlaugum en erlendis er sundleggurinn nánast alltaf í sjó, stöðuvatni eða í á þar sem keppendur ýmist hlaupa af ströndinni út í sjó þegar hleypt er af eða er safnað saman áður ofan í vatninu fyrir framan strengda byrjunarlínu. Sundleggurinn er oft afar troðinn og er stundum líkt við það að vera fastur í þvottavél enda á stærstu mótunum allt að 3000 keppendur ræstir út samtímis. Hins vegar er oftar ræst út í hollum t.d með 5 mín millibili og er það mun æskilegra fyrir byrjendur. Ef hitastig vatnsins er undir 25 gráður, synda flestir í blautbúningum en ef hitastig fer undir 17 gráður er skylda að keppa í þeim. Engar reglur gilda á sundinu og heimilt er að synda beint fyrir aftan næsta mann (drafta) sem sparar manni talsverða orku.
Þegar sundinu er lokið, hleypur keppendi á skiptivæðið þar sem hjóla- og hlaupabúnaður er geymdur á slá merktu númeri hvers þátttakanda. Mikilvægt er að skoða áður hvar sláin þín er og miða við kennitleiti í umhverfinu því eftir sundið er algengt að vera smá ringlaður og þá getur verið erfitt aðfinna dótið sitt. Til að eyða ekki óþarfa tíma þarf að vera snöggur að klæða sig úr blautbúningnum, setja á sig hjálm, skó og fara á hjólið (ágætt að ímynda sér að maður sé að verða seinn í flug). Best er að vera í aðsniðnum samfesting eða þröngum buxum og topp undir blautbúning til að þurfa ekki að eyða tíma í að klæða sig í föt. Við íslenskar aðstæður er þó oftast nauðsynlegt að klæða sig í topp eftir sundlegginn. Þeim minna sem þarf að gera á skiptisvæðinu þeim betra en lengra komnir t.d festa skóna á hjólið með teygju, festa orkugel, sólgeraugu ofl. með límbandi á stýrið og setjaþetta allt á sig á ferð. Mikilvæg regla er að festa á sig hjálminn áður en hjólið er snert, ella fá 2 mínútur í sekt.
Hjólaleggurinn er best til þess fallinn að hlaða sig upp af orku með t.d geli og íþróttadrykk og mun ég fjalla nánar um það síðar þar sem orkuþörf fer alveg eftir vegalengdum og einstaklingum. Í styttri vegalendum er óhætt að fara geyst á hjólinu þar sem hlaupið er ekki það langt en í lengri vegalendum skiptir öllu að keyra sig ekki alveg út á hjólinu þar sem hlaupið tekur mikinn toll. Ég mæli með að hjóla í léttari gír og spinna meira síðasta kílómetrann til að undirbúa lappirnar fyrir hlaupið.
Þegar hjólaleggnum er lokið fara keppendur aftur inn á skiptisvæðið, leggja frá sér hjólið á merktan stað, setja á sig hlaupaskóna og hlaupa þar til marklínu er náð. Flestum finnst erfiðasti hluti þríþrautar (eftir að sigrast á sundóttanum) vera að hlaupa þegar maður er orðinn vel þreyttur eftir hjólreiðarnar. Ég mæli með að taka lítil og mjög hröð skref fyrsta hálfa kilómetrann til "finna lapparinar" eins og það er kallað. Svo er bara að njóta þess og umfram allt vera þakklátur að hafa hreysti til að ljúka keppni en tilfinningin að klára, bæta fyrri tíma, hvað þá vinna til verðlauna er ólýsanleg :-)