Ég vann Íslandsmeistartitilinn í 20 km hjólreiðakeppni núna á miðvikudagskvöld. Ég var heppin að ná að taka þetta því þreytan eftir löngu æfingarnar frá síðustu helgi sat auðvitað ennþá í mér og ég þurfti auk þess að taka tæplega tveggja tíma hlaupaæfingu á þriðjudeginum. Ef þú vilt ná árangri í keppni sem krefst smá sprengikrafts þá er þá er svoleiðis þ.e. langar og hægar æfingar dagana fyrir keppni versta uppskrift í heimi. Til að ná hámarks árangri í svona keppni þá sleppirðu öllum löngum æfingum 2 vikum fyrir keppni. Tekur í undirbúningnum fullt af styttri æfingum á hraða nálægt keppnishraða eða hraðar og hvílir svo vel amk 3 daga fyrir. Ég var satt að segja búin að undirbúa mig andlega að tapa keppninni og því að tapa allt að 3 mínútum samanborið við hefðbundinn undirbúning. Ég var talsvert frá mínu besta en hef ótrúlegan grunn og náði þeim merka árangri að vinna þrjiðja Íslandmeistaratitilinn á tæpum þremur vikum. Gunni hló bara að mér og sagði að nú fyrst væri ég búin að setja viðunnandi vikulegan staðal og þyrfti nú að grafa upp annað mót til að keppa á í næstu viku.
Mín bíður talsvert stærra viðfangsefni og eins gott að halda sér við efnið. Það að vera ekki í rútinu og sérstaklega það að hafa börnin ekki í rútinu finnst mér frekar erfitt og fókusinn mætti vera betri. Æfingarnar sjálfar eru eiginlega minnsta málið. Allt skipulagið sem liggur að baki er annað. Ég finn að ég hef áhyggjur af því hvort börnin séu í góðu jafnvægi, að ég sé að vanrækja fólkið mitt, ekki að ná að hitta vini hérna heima, hver á að passa þau þegar ég fer til Hawaii osfrv. Það er alltaf púsl að finna barnapössun og manni finnst maður vera að leggja byrðar á fjölskylduna. Ég veit innst inni að þetta eru óþarfa áhyggjur. Ég gæti ekki haft betra stuðningsnet og stórfjölskyldan vill allt gera til að styðja mig í undirbúningum. Sjálfsagt er þetta hluti af því að vera mamma og eðlilegasta tilfinning í heimi. Ég þarf bara að minna mig á að þetta er einungis tímabundið þar sem ég er svona upptekin, ég er að gera hluti sem ég elska og það er verið að safna í reynslubanka sem margir munu njóta góðs af.