Fólk segir mér gjarnan frá því að núna sé það komið í átak hvort sem það er matarátak, heilsuátak, hreyfingarátak eða annað átak. Hafið þið einhvern tímann hugleitt hvað orðið átak felur í sér? Ég tengi orðið átak við eitthvað sem er erfitt eða hálfgöra baráttu. Við tölum t.d um stríðsátök. Bara það að heyra svona neikvætt orð fær mig til að fara í varnarstellingar og virkar amk engan veginn sem hvetjandi á mig eða eitthvað sem vekur hjá mér tilhlökkun. Ég tengi orðið átak líka við eitthvað sem er bara tímabundið, gengur yfir en kemur svo jafnvel aftur þ.e meiri barátta seinna!! Er það það sem þú vilt þegar kemur að þvi að hugsa um líkamann þinn. Líkamann sem vinnur fyrir þig dag og nótt og hýsir huga þinn og sál.
Við þurfum öll að borða, sofa og fara á klósettið og af því að líkaminn þvingar okkur til þess að þá gerum við það ósjálfrátt. Líkaminn er ekki síður gerður til þess að við hreyfum hann og ekki fyrir svo löngu þurftu bæði menn og konur að vera á fullri hreyfingu allan daginn bara til þess af hafa ofan í sig og á. Forfeður okkar þurftu að róa á miðin eða vinna erfið sveitastörf. Mæður voru heima og þurftu hugsa um stór heimili, fáir áttu bíla og fólk gekk nánast allra sinna ferða. Möo daglegar athafnir fólu í sér svo mikla hreyfingu að fólk þurfti ekki að hugsa um að fara í líkamsækt eða hreyfa líkamann.
Ég myndi svo sannarlega ekki vilja skipta og búa við þau lífskjör sem voru hér fyrir nokkrum áratugum en það sem fólk þá hafði umfram okkur 2010 er að hreyfing var ósjálfráður hluti af lífinu og mataræðið var miklu hreinna þó að það hafi ekki verið eins fjölbreytt. Í dag keyrir flest fólk sinna leiða og mjög margir vinna kyrrsetuvinnu allan daginn.Við borðum líka endalaust rusl, unnin kolvetni, sykurdrykki og djúpsteiktan mat. Horfðu bara á fólk í kringum þig og sjáðu hvernig er komið fyrir okkur en t.d í UK eru 17% af 15 ára unglingum og 76% af 55 ára og eldri skilgreindir sem of feitir (svo ég minnist ekki á alla sem eru of þungir) . Ég efast um að ástandið á Íslandi sé betra og mér hreinlega bregður í hvert skipti sem ég kem heim. Er það eitthvað skrítið að vandmál tengd ofþyngd eins léleg sjálfsmynd,orkuleysi,áunnin sykur sýki, vefjagigt, ofl eru orðin hluti af lífi mjög margs fólks í stað þess að borða hreinni mat og stunda eðlilega hreyfingu eins og við erum sköpuð fyrir.
Óháð þyngd þá þurfum við öll einhvern veginn að fara að hætta að fara í átak hvort sem það er að hreyfa okkur meira eða borða á vandaðari hátt. Segja frekar ,,nú ætla ég að fara að hugsa um mig" og tengja það við tilhlökkun og eitthvað jákvætt. Gleymdu þessum öfgakenndu skorpum sem þú tekur þegar þú færð ógeð tvisvar á ári og reyndu frekar að hugsa meira um heildarmyndima og sjá það sem spennandi viðfangsefni að geta liðið vel dags daglega. Byrjaðu smátt, taktu örlítil skref í einu, fáðu stuðning, lestu þig eins mikið til og þú getur og forðastu fólk sem letur þig. Ef ein leið virkar ekki þá finnurðu bara aðra. Prófaðu margar leiðir og veldu það besta úr hverri leið til að skapa þér þinn eigin farveg. Bara aldrei gefast upp og aldrei tengja það að hugsa um líkamann sem átak eða átök. Góða helgi og stórt knús til ykkar allra.