Mig langar til að byrja á því að óska henni Annie Mist sérstaklega til hamingju með glæsilegan árangur á heimsmeistaramótinu í Crossfit. Ég þekki manna best hversu mikil vinna liggur að baki og fæ gæsahúð af gleði fyrir hennar hönd.
Annars er allt dúndur gott að frétta og ég er komin til Reykjavíkur eftir að hafa flakkað milli sumarbústaða undanfarna 10 daga. Það var alveg meiriháttar að vera uppí bústað og sérstaklega að hitta fjölskylduna en það er ekkert grín að reyna að halda þessu æfingabatteríi mínu í gangi nema maður hafi frekar fastskorðaða rútínu, sundlaugar nálægt osfrv. Ég virtist elta rok og rigningu, fyrst fyrir vestan og svo á Flúðum. Hjólaæfingarnar enduðu hver á eftir annarri í vosbúð eða á vegum þar sem malbikið var svo slæmt að ég þurfti að reiða hjólið. Ekki alveg besti undirbúningurinn fyrir aðstæður á Hawaii!! Það fóru nokkrir dagar í það að bölva íslenskri veðráttu og aðstæðum til götuhjólreiða en slíkur pirringur er orkusuga. Ég þarf hreinlega að klæða mig betur, redda mér hjóli sem þolir malarvegi og æfa innanhúss þess á milli. Það hefur gengið vel að sinna vel hlaupa og hjólaæfingum eins míns liðs en öðru máli gildir um sundið. Það kemur mér á óvart hvað ég er slök í lauginni þegar ég hef enga æfingafélaga sem setja pressu á mig þannig eins gott að vera komin í bæinn þar sem ég get æft með öðrum. Eitt er víst að það skortir ekki góðar aðstæður til sundiðkunar hér á Íslandi. Ég er dolfallin yfir sundlaugunum og heitu pottunum. Samanborið við köldu og troðnu innanhúsklórpittina sem ég syndi í úti í London þá er þetta alveg magnað og heitu pottarnir gera kraftaverk í því að lina þreytta vöðva.
Á morgun er svo Íslandsmeistaramótið í götuhjólreiðum sem verður haldið á Þingvöllum kl 10. Konur hjóla 68 km og karlar hjóla 100 km. Hljómar furðulega en ég hef aldrei keppt í götuhjólreiðum þannig þetta verður áhugavert. Mér dettur ekki í hug að missa af svona skemmtun og þetta passar fullkomlega inní æfingaplanið sem hljóðar uppá 2.5-3 tíma hjólatúr á keppnishraða og 90 mínútna hlaup. Götuhjólakeppnir eru mjög ólíkar tímakeppni og þríþraut að því leyti að þú mátt hjóla í kjölsoginu (beint fyrir aftan) næsta mann líkt og gæsir gera í oddaflugi . Slíkt sparar þér 27-36% orku þannig sigurvegarinn er oftast sá sem nýtir sér kjölsogið best og sá sem getur tekið öfugasta endasprettinn. Bara stuð og ég hlakka til.