Alveg mögnuð helgi að baki. Á laugardaginn fór fram Íslandsmeistaramótið í götuhjólreiðum á Þingvöllum. Þetta var frumraun mín í götuhjólakeppni. Það var fámennt en góðmennt í kvennaflokki og við vorum bara fimm. Algjör skömm í ljósi þess að það er núna fjöldi af konum á Íslandi sem stunda skipulagðar þríþrautar og hjólreiðaæfingar...svo ég minnist ekki á allar spinningdrottingarnar . Við hjóluðum 68 km í þjóðgarðinum á Þingvöllum eða fjóra hringi þarna framhjá taldmiðstöðinni og meðfram vatninu. Þvílík fegurð og vá hvað það var gaman. Ég nennti ekki einu sinni að vera með í fyrra því ég hélt að ég myndi hrista af mér samkeppnina á nokkrum mínútum en mér finnst ekkert gaman að keppa ef ég fæ enga samkeppni. Mér skjátlaðist þar. Við Íslendingar eigum þrjár hjólreiðakonur sem hafa styrk til að keppa á alþjóðavettvangi og það var ekki fyrr en á síðasta hring sem ég braut mig frá Ásu Guðný og náði að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Það kom mér verulega á óvart hvað stelpurnar voru sterkar í brekkunum. Ása lét mig alveg finna fyrir því og landaði öðru sætinu. María Ögn átti slæman dag og missti okkur á öðrum hring en hún gefur mér ekkert eftir á hjólinu og náði þriðja sætinu. Keppni í karlflokki var æsispennandi og sérstakt hrós fá keppendur í B-flokki sem voru sumir að keppa í fyrsta sinn. Sjá úrslit og nánar á hfr.is
Æfingadagurinn hljóðaði uppá 90 mínútna hlaup. Ég hljóp 30 mínútur strax eftir keppni í góðum félagsskap en þurfti að klára æfinguna seinna um daginn til að tefja ekki verðlaunaafhendingu. Fjölskyldan var á Gay pride niður í bæ og ég þurfti að sleppa því að koma með til að safna smá orku og klára síðustu 60 mínúturnar. Venjulega myndi ég sleppa því en ég verð að gefa mig 100% í undirbúninginn enda ljóst að stelpurnar á Hawaii munu ekki bíða eftir mér. Það er á svoleiðis stundum þar sem mig langar að gera eitthvað allt annað og hugsa ,, er þetta þess virði?. Svarið er já, það eru líka svoleiðis stundir sem gera mann sterkari bæði andlega og líkamlega og það sem skilur á milli góðs árangurs og afreks árangurs. Gamanið var ekki búið á laugardeginum. Á sunnudeginum hjólaði ég með nokkrum görpum sem eru að undirbúa sig fyrir Ironman Flórida núna í nóvember. Ég hélt þetta yrði nettur túr á Þingvöll en við enduðum með því að hjóla alla leið á Laugarvatn og það á góðri keyrslu. Þetta var þar með næst lengsti hjólatúrinn minn á þessu ári, alls 169 km og ein skemmtilegasta æfing sem ég hef upplifað. Foreldrarnir eru ennþá í aðlögun yfir þessum vegalendum. Pabbi hringdi þegar við vorum á Laugarvatni og missti næstum tólið þegar ég sagði honum að ég væri stödd á Laugarvatni á hjóli. Það þarf varla að taka fram að ég sit núna með harðsperrur og þreytu í hverjum einasta vöðva. Ég get varla horft á hjólið mitt í dag og ætla í mesta lagi að fara með börnin í sundlaugarnar og taka nokkrar ferðir í rennibrautinni.
Sérstakar þakkir fá Hafteinn Örn Ægisson, núverandi Íslandsmeistari karla í götuhjólreiðum og Örninn fyrir að púsla saman fyrsta götuhjólinu mínu og gera mér kleift að vera með á laugardaginn.