Það eru 20 íslendingar að taka þátt í Ironman í Kaupmannahöfn um miðjan ágúst. Því var hvíslað að mér að nokkrir væru enn þá bara að æfa 4-6 tíma á viku. Ég vona svo sannarlega að það sé ekki rétt og fólk sé í rauninni límt við túrbo þjálfann heima hjá sér þegar enginn sér til eða úti að hlaupa í skjóli nætur :-) Miðað við 13 vikur til stefnu þá ættuð þið að vera að hjóla amk 4 klst í langa hjólatúrnum og helst að hlaupa 90 mín í löngu hlaupunum. Það gera 5,5 klst að lágmarki um helgar og mun æfingatíminn fyrir löngu æfingarnar fara vaxandi þessar síðustu vikurnar. Þá eru ekki meðtaldar allar aðrar æfingar í vikunni.
Ef þetta er staðan hjá þér og þér sérð ekki fram á algjöran viðsnúning þá myndi ég hætta við núna og finna mér önnur markmið. Ironman er ekkert grín og þeir sem vanmeta vegalendina af því að þeir komust einhvern tímann í gegnum eitt stykki maraþon lítt þjálfaðir munu vakna upp við vondan draum. Trúðu mér þú vilt ekki komast að því í 13-15 klst keppni (mv meðalkúrvuna) að þú hafir ekki unnið heimavinnuna! Slíkt kostar þig í besta falli vonbrigði og sennilega nokkrar vikur í rúminu.
Sem betur fer eru flestir á góðri leið í æfingunum og verður gaman að fylgjast með þeim í framhaldinu. Þessi skilaboð eiga ekki bara við Ironmanfólkið okkar heldur alla þá sem eru að takast á við áskorun sem er mun meiri en þeir hafa áður tekist á við t.d nokkurra daga hjólatúr, "adventure race" eða annað sambærilegt. Þú verður að hafa það á hreinu hvað þarf til og umfram allt halda þér á áætlun. Ef svo er ekki og ef þú ert runninn út á tíma með að gera eitthvað róttækt í málunum þá verðurðu að kyngja stolltinu og aðlaga plönin.
Þeir sem eru að taka þátt í sprettþrautinni á sunnudaginn eiga að hvíla í dag og taka mjög stutta æfingu á morgun t.d 20 mín rólegt hlaup með 6 x 30 sek á keppnishraða. Ironmanfólk hefur ekki efni á svona afslöppun sérstaklega ef helgarnar eru þinn eini tími til að gera löngu æfingarnar. Þú getur stytt æfinguna á morgun aðeins en á sunnudaginn verðurðu að hoppa á hjólið strax eftir keppni og bæta við 3:15 klst útivið eða 2:30 klst ef á turbo þjálfa. Ef þetta er sjokk þá munt þú þakka mér fyrir á keppnisdag.
Kveðja, eftirlitsmamman