Eins og það er frábært að vera í keppnisformi þá er einn galli við það. Fólk í kringum þig (fyrir utan æfingafélagana) er nánast ófáanleg með þér í hvers kyns hreyfingu. Það er eins og það verði hálf hrætt við þig og haldi að þú sért annað hvort að bjóða þeim í keppni eða reyna að gera lítið úr þeim. Þeir fáu sem eru nú þegar í góðu formi umbyltast oft í nærveru minni og fá mikinn kraft en ég er ekki frá því að nærvera mín ef eitthvað er dragi úr hreyfingu hinna. Eins og fólk upplifi sig svo"ófitt" í samanburði að það missi einhvern veginn móðinn við að koma með eða gera eitthvað sem krefst hreyfingar.
Til dæmis ef ég er í góðra vina hópi og er að undirbúa mig fyrir æfingu þá er oft aðal aðhlátursefnið það hver ætli nú að drífa sig með og menn jafnvel safna áheitum fyrir tilvonandi fórnarlamb. Það er alveg fótur fyrir þessu hjá þeim en eiginmaðurinn var til að byrja með mikið mér á hlaupaæfingum þangað til ég einn daginn hreinlega sprengdi hann. Það þýddi að hann var auðvitað ófánlegur með mér út að hlaupa í marga mánuði. Þetta var um það leyti sem ég fór að þjálfa aðra og lærði ég þar með af eigin mistökum hver lykilinn er að því þjálfa aðra en keppnisfólk og hvernig maður fær fólk til að vilja koma aftur. Formúlan er einföld:
Leyfðu þeim sem kemur með þér að stjórna hraðanum og ekki vera lengur en þú veist að viðkomandi ræður vel við.
Það er tilvalið að nota upphitun eða kælingu í draga fólk út í stutta stund. Í gær fór ég t.d á hlaupaæfingu og tók bróður minn með mér í upphitunina sem var 15 mínútur. Hann er í eðli sínu mikill íþróttamaður en hefur einhverra hluta vegna ekki hreyft sig í heilt ár og því voru 15 mínútur passlegt. Í stað þess að hitta vinina á kaffihúsi er t.d hægt að ganga Öskjuhlíðina eða Heiðmörkina eða hjóla stígana með fram ströndinni í höfuðborginni. Fyrir hjólafólk og hlaupafólk þá er tilvalið að draga makann með smá hring þegar þú ert búin á æfingu...ef þú hefur pössun. Ég hef t.d oft farið í langa túrinn minn og svo tekið síðustu 30 mín mjög rólega með nýliðum eða gestum sem eru hjá mér í heimsókn. Fylgdu bara formúlunni að ofan og áður en þú veist af vilja allir koma með þér. Brosið sem þú færð frá viðkomandi eftirá er ómetanlegt....og í rauninni kjarninn í því af hverju ég elska þetta starf.