Var handtekinn á æfingasvæðinu

Aboubakar Kamara í leik með Fulham gegn Manchester United.
Aboubakar Kamara í leik með Fulham gegn Manchester United. AFP

Franski framherjinn Aboubakar Kamara sem leikur með enska úrvalsdeildarliðinu Fulham var handtekinn á æfingasvæði Fulham á mánudaginn vegna líkamsárásar.

Kamara, sem er 23 ára gamall og gekk í raðir Fulham fyrir tveimur árum, hefur verið settur í ótímabundið bann í öllu starfi hjá Lundúnaliðinu meðan unnið er að rannsókn málsins en leikmaðurinn var hnepptur í gæsluvarðhald.

Kamara hefur komið við sögu í 15 leikjum með Fulham í öllum keppnum á leiktíðinni. Kamara komst í fréttirnar ekki alls fyrir löngu þegar stjóri liðsins, Claudio Ranieri, lét hafa eftir sér að hann langaði að drepa Kamara eftir að hann brenndi af vítaspyrnu í leik á móti Huddersfield. Kamara neitaði að láta boltann af hendi til vítaskyttunnar Aleksandar Mitrovic en þeim hafði áður lent saman í jógatíma hjá Fulham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert