Beint í sauðburð í Dölunum

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi mætir í Hörpu til að skila …
Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi mætir í Hörpu til að skila inn framboði sínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halla Hrund Logadóttir segist þakklát fyrir þann meðbyr sem hún hefur fengið í kosningabaráttunni en hún líkt og aðrir forsetaframbjóðendur skilaði inn undirskriftalistum í Hörpu í dag.

Hún mælist nú með tæplega 20% fylgi í skoðanakönnunum. Hún hyggst byrja kosningabaráttuna á sauðburði í Dölunum áður en hún fer í samtal við landsmenn um landið. 

„Ég hlakka til að eiga samtal við landsmenn um það sem skiptir máli. Það snýst um tækifæri fyrir framtíðina og ég sé forsetaembættið sem magnara fyrir okkar tækifæri,“ segir Halla Hrund.

Hún segist finna mikinn hljómgrunn með hennar gildum sem eru samvinna og samtakamáttur.

„Forsetaembættið hefur möguleika á því að draga saman ólíka aðila í samfélaginu og lyfta upp tækifærum í byggðum landsins og að styðja við að við getum flutt út okkar þekkingu. Við þurfum að styðja nýsköpun og opna dyr erlendis og magna tækifæri listafólks í hinum stóra heimi. Það er þannig sem ég lít á þetta embætti. Forseti á að vera öflugur liðsmaður við þjóðina og öflugur liðsmaður í að opna tækifærin sem eru fræin sem við sáum í dag og munu blómstra. Ekki bara í dag heldur líka fyrir þá sem á eftir koma,“ segir Halla Hrund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert