„Það besta við Austurlandið er kyrrðin og náttúran“

Diljá Hrafnkelsdóttir býr með fjölskyldunni sinni á Breiðdalsvík.
Diljá Hrafnkelsdóttir býr með fjölskyldunni sinni á Breiðdalsvík.

Diljá Hrafnkelsdóttir, grafískur hönnuður og ljósmyndari, og Kristinn Magnússon, rafvirki og íþróttafræðingur, eru búsett á Breiðdalsvík. Drengirnir þeirra njóta þess að búa í litlu bæjarfélagi, stutt er niður í fjöru og oftar en ekki eru þeir að veiða þegar hún fer út að leita að þeim.

„Ég er fædd og uppalin hér á Breiðdalsvík en flutti héðan strax eftir grunnskóla. Við í rauninni festumst hér á frekar ótrúlegan hátt en í febrúar 2020 vorum við fjölskyldan búsett í Ósló og þurftum að flýja í hálfgerðu hasti úr húsnæðinu okkar vegna myglu og komum því grunlaus hingað til pabba sem er búsettur hér á Breiðdalsvík. Stutta stoppið sem átti nú bara að vera mánuður er nú orðið að rúmum þremur árum. Við keyptum okkur svo hús þegar ljóst var að við værum ekki að komast út aftur á næstunni og hér erum við enn allavega,“ segir Diljá þegar hún er spurð af hverju þau settust að á Breiðdalsvík.

Þessi mynd var tekin í Höfðavík.
Þessi mynd var tekin í Höfðavík. Ljósmynd/Diljá

Hver er kosturinn við að vera með fjölskyldu á Breiðdalsvík?

„Það er klárlega frelsið sem börnin hafa hér en ég þarf flesta daga að leita að strákunum í kvöldmat og þeir eru bara úti að leika sér, veiða og í einhverju brasi alla daga með vinum sínum. Ég ólst hér upp við þetta frelsi líka og því finnst mér alveg dásamlegt að börnin mín fái að upplifa þetta eftir að hafa alist upp í stórborg. Maðurinn minn er íþróttafræðingur og tók sig til og reif upp allt íþróttastarf á svæðinu en hér var ekkert við að vera fyrir börn á þessum tíma og í dag æfa strákarnir okkar bæði körfubolta og karate með íþróttafélaginu Hrafnkeli Freysgoða og eru einnig í nýstofnuðu skátafélagi svo það er nóg að gera.“

Ljómynd/Diljá

Föstudagskvöld eru pítsukvöld á Breiðdalsvík

Hvað finnst þér best við bæinn?

„Það besta við Austurlandið er kyrrðin og náttúran. Dagarnir einkennast af miklu hæglæti og lífið er frekar þægilegt. Hér er sko ekkert stress. Svo er auðvelt að fara í dagsferðir eða helgarferðir á næstu firði en allir hafa þeir upp á svo margt að bjóða.“

Eruð þið dugleg að borða mat úr héraði?

„Pítsurnar á Kaffi Hamri hér á Breiðdalsvík eru fastur liður hér á okkar heimili á föstudögum en þar færðu alveg ótrúlega góðar súrdeigspítsur. Við erum frekar dugleg að kaupa mat og vörur sem eru framleiddar hér fyrir austan. Sósurnar frá Lefever eru hreinn unaður en þær eru framleiddar hjá nágrönnum okkar á Djúpavogi. Svo er það kaffið frá kaffibrennslunni Kvörn á Stöðvarfirði en það fæst meðal annars á Hótel Breiðdalsvík. Orðið á götunni er svo að besti rjómaís landsins fáist í Skálanum á Egilsstöðum og því erum við fjölskyldan sammála.“

Ljósmynd/Diljá

Hvernig er hefðbundinn sumardagur hjá ykkur?

„Á sumardögum þykir okkur afar gott bara að sóla okkur í garðinum ef veður leyfir. Strákarnir sulla mikið í læknum sem rennur hérna í gegnum þorpið og veiðiferð í Kleifarvatn eða sjóferð með afa slær alltaf í gegn. Við erum líka mikið að brasa í garðinum en þar erum við að rækta kartöflur, gulrætur, grænkál, jarðaber og fleira gott. Deginum er svo oftast lokað með sundferð og góðum grillmat með fjölskyldunni. Hér eru börnin líka úti að leika í alls konar leikjum langt fram á kvöld á sumrin.“

Ljósmynd/Diljá

Ógleymanlegt að fara í Loðmundarfjörð

Hvað má ekki láta fram hjá sér fara þegar farið er til Breiðdalsvíkur?

„Hér er margt í boði fyrir ferðamanninn en ég myndi segja að fyrsta stopp ætti að vera á Meleyri sem er afar falleg strandlengja áður en komið er inn í þorpið og vinsælt stopp hjá erlendum ferðamönnum. Flögufoss er svo hér innar í dalnum en þar er alveg geggjað að ganga upp og reyndar alveg ótal gönguleiðir hér upp um öll fjöll.

Kaffi Hamar, hvort sem það er súrdeigspítsa eða bara marengsterta og kaffibolli, með frábæru útsýni yfir víkina. Hótel Breiðdalsvík er ótrúlega sjarmerandi hótel þar sem boðið er upp á íslenskan mat og vörur úr nærumhverfinu. Á hótelinu er einmitt verið að opna úti-spa með heitum og köldum pottum, sauna og nuddaðstöðu meðal annars og svo er hægt að láta líða úr sér við arineld í setustofunni og gæða sér á bjór frá Beljanda sem bruggaður er í heimabyggð. Brugghúsið Beljandi er handverksbrugghús og bar í þorpinu og tilvalið að stoppa við í bjórsmakk þar. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands, Breiðdalssetur, er með sýningar allt sumarið um jarðvísindi og sögu bæjarins meðal annars. Þar er ókeypis inn og eitthvað fyrir alla.“

Loðmundarfjörður er fallegur.
Loðmundarfjörður er fallegur. Ljósmynd/Diljá

Hvert farið þið þegar þið viljið fara í stutt ferðalag?

„Við höfum farið nokkuð oft yfir sumarið í útilegu í Höfðavík en þar er dásamlegt að eyða helginni með fjölskyldu og vinum og einstaklega veðursælt. Hallormsstaðaskógur er ein fallegasta perla Austurlands að okkar mati og okkur líður alltaf smá eins og við séum komin aftur út til Noregs að koma þangað. Svo má ég til með að nefna Finnsstaði á Héraði en þar er litill húsdýragarður sem okkur finnst ótrúlega gaman að heimsækja.

Eftirminnilegasta helgarferðin í fyrrasumar var þó í Loðmundarfjörð en þangað kemst þú eiginlega bara yfir sumartímann. Þar er ekkert símasamband og fjörðurinn í fór í eyði 1973. Við áttum þar æðislega daga í algjörri kyrrð og alveg frá öllu áreiti. Það er ferð sem mun aldrei gleymast.“

Ljósmynd/Diljá

Áttu þér uppáhaldsnáttúruperlu á svæðinu?

„Jórvík á sérstakan stað í hjarta mínu en það er afar fallegt skógi vaxið svæði inn í Breiðdalnum og alveg sérstök orka þar. Þar myndast oft algjör hitapollur og draumi líkast að fara með teppi og nesti þangað þar sem er sullað í læknum og litlum fossum á sólardögum.“

Í hvaða sundlaug er best að láta líða úr sér?

„Það eru tvær laugar hérna í Fjarðabyggð sem eru uppáhaldi hjá okkur en það er Stefánslaug á Neskaupstað og sundlaugin hér á Breiðdalsvík. Hún er bara opin í þrjá mánuði á ári hins vegar en við höfum notað hana mikið á sumrin og alltaf gott að ljúka góðum sólardegi þar.“

Ljósmynd/Diljá
Ljósmynd/Diljá
Ljósmynd/Diljá
Ljósmynd/Diljá
Ljósmynd/Diljá
Þessi mynd var tekin í Höfðavík.
Þessi mynd var tekin í Höfðavík. Ljósmynd/Diljá
Ljósmynd/Diljá
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert