Ætlar á Pussy Riot á LungA

Ragnhildur Ásvaldsdóttir er forstöðumaður Sláturhússins á Egilsstöðum.
Ragnhildur Ásvaldsdóttir er forstöðumaður Sláturhússins á Egilsstöðum.

Ragnhildur Ásvaldsdóttir, forstöðumaður Sláturhússins listamiðstöðvar, á ættir að rekja til Seyðisfjarðar og Sómastaða í Reyðarfirði. Sjálf flutti hún austur árið 2019 og þá til að starfa innan lista- og menningargeirans. Einn af hápunktum sumarsins hjá Ragnhildi verður að sjá Pussy Riot á LungA-hátíðinni.

„Sláturhúsið er lista- og menningarmiðstöð. Okkar áherslusvið eru sviðslistir en við sinnum jafnframt tónlistinni og myndlistinni. Við erum, eins og nafnið gefur til kynna, með aðsetur í gamla Sláturhúsinu á Egilsstöðum,“ segir Ragnhildur. Í sumar verður myndlistarsýningin Remember the Future haldin auk þess sem sýningin Jarðtenging heldur áfram. Djasstónleikaröðin Far out / langt út fer fram í júní og ágúst.

Skapandi fólk hefur lengi sótt austur og er menningarlífið sérlega blómlegt. „Seyðisfjörður hefur til dæmis í gegnum síðustu áratugina verið suðupottur lista og menningar á Austurlandi, og það er hægt að þakka listamönnum eins og til dæmis Dieter Roth sem dvaldi þar langdvölum. Skaftfell myndlistarmiðstöðin opnaði síðan árið 1998, Sláturhúsið og videólistahátíðin Hreindýraland 700IS bættust síðan við, LungA-hátíðin á Seyðisfirði, LungA-skólinn, Rúllandi snjóbolti á Djúpavogi og Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði,“ segir Ragnhildur.

Sýning í Sláturhúsinu.
Sýning í Sláturhúsinu.

„Allt þetta starf hefur í gegnum árin verið rekið af hugsjónafólki og sem betur fer fengið stuðning frá bæði samfélaginu og sveitarfélögunum í kring til að þróast og dafna. Við erum með mikið gegnumstreymi listafólks sem kemur hingað á svæðið í vinnustofur eða í nám við LungA-skólann. Þetta smitar áhuga inn í samfélögin,“ segir hún og tekur fram að það hafi verið tekin pólitísk ákvörðun um að styðja listir með miðstöð sviðslista í Sláturhúsinu, miðstöð myndlistar í Skaftfelli auk þess sem Tónlistarmiðstöðin er á Eskifirði.

Ragnhildur segir listafólk sækja bæði innblástur í umhverfið og samfélagið. „Það kemur fólki oftast nær á óvart hversu opið samfélagið er og hve aðgengið að fagfólki er auðvelt. Það er líka alveg einstakt samstarf á milli okkar allra sem vinnum í lista- og menningargeiranum, þvert á stofnanir og bæjarkjarna. Ég er heldur ekki frá því að sá mikli fjöldi erlendra listamanna sem hér býr sé ákveðinn þráður sem að tengir okkur enn betur saman auk þess að vera stór innspýting í listasamfélagið.“

Ragnhildur reynir að sækja sem flesta menningarviðburði fyrir austan en úrvalið er svo mikið að hún segir erfitt að komast yfir allt. „Sýningar í Skaftfelli og á Djúpavogi læt ég sjaldan fara fram hjá mér. Auk þess sæki ég viðburði tengda vinnustofum í kring. Síðan læt ég mig ekki vanta á ljósmynda-videólistaviðburði sem fara fram undir nafninu Fiskisúpa-ljósmyndasósa; sýning, óformlegt sýningarspjall og málsverður um leið. Eitt dæmið um gróskuna í menningarlífinu. Tónlistarmiðstöðin er síðan oft og tíðum með afar áhugaverða dagskrá sem ég reyni að sækja.“

Hvað má fólk sem ætlar austur alls ekki láta fram hjá sér fara?

„Sláturhúsið að sjálfsögðu, ég mæli líka með Skaftfelli og söfnunum á Neskaupstað, m.a. Tryggvasafni, sem er safn með verkum Tryggva Ólafssonar myndlistarmanns. Gróskan í matargerðarlist er líka mikil og enginn ætti að láta veitingastaðinn Nielsen á Egilsstöðum fara fram hjá sér. Nielsen er einn albesti veitingastaður landsins. Verið var að opna bistróið í Skaftfelli aftur eftir breytingar sem er með frábæran mat og einnig má nefna Norð-Austur sushi á Seyðisfirði. Náttúruna í kringum okkur er augljóslega nauðsynlegt að skoða; Stórurð, Stapavík, Mjóifjörður – hér er hægt að telja endalaust upp. Og svo enda daginn í Vök.“

Pussy Riot koma fram á LungA í sumar á Seyðisfirði. …
Pussy Riot koma fram á LungA í sumar á Seyðisfirði. Hér eru þær í Þjóðleikhúsinu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Ég var að kaupa mér miða á Pussy Riot á LungA-hátíðinni og fer örugglega á fleiri viðburði þar. Síðan ætla ég á tónleika með Mugison í bakgarðinum hjá Dóra vini mínum á Tehúsinu, sem stendur hérna við hliðina á Sláturhúsinu. Rúllandi snjóbolti er einnig á planinu og tónlistarhátíðin Bræðslan á Borgarfirði. Þess á milli ætla ég að halda áfram að kynnast svæðinu hérna betur með gönguferðum frá einum firði til annars, og útilegu í Vöðlavík. Njóta þess sem er hér í boði, sérstaklega þar sem veðrið á örugglega eftir að leika við okkur í sumar. Svo er Frakklandsferð á dagskránni um mitt sumar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert