Telur málverkaræningjana í leit að frægð

Málverkið Ópið, sem rænt var úr Munch safninu í gær.
Málverkið Ópið, sem rænt var úr Munch safninu í gær. AP

Tommy Sørbø, listfræðingur, segir í samtali við norska netmiðilinn Nettavisen að þeir sem rændu tveimur málverkum eftir norska málarann Edvard Munch í Ósló í gær, hafi gert það til að komast á spjöld sögunnar. Segir Sørbø að í listasögunni sé getið margra málverkaþjófnaða, en sá þekktasti sé líklega þegar málverkinu Monu Lisu var stolið úr Louvre safninu í París árið 1911. Tvö ár liðu þar til kom aftur í leitirnar.

Sørbø segir, að ránið á málverkunum Ópinu og Madonnu úr Munch safninu í gær komist án efa á hinn vafasama topp-10 lista yfir þjófnað á þekktum listaverkum. Segir hann að ræningjarnir hljóti að láta stjórnast af þrá eftir frægð.

„Þetta er einskonar póstmódernískt rán þar sem þjófarnir eru að eltast við stundarfrægð. Því það er ómögulegt að koma málverkum á borð við þessi í verð," segir Sørbø. Hann segir að listaverk sem rænt sé komi yfirleitt aftur í leitirnar en aðrir sérfræðingar eru annarrar skoðunar og benda á að mörg þekkt listaverk, sem rænt hafi verið á undanförnum árum, hafi ekki komið í leitirnar.

Sørbø stýrði eitt sinn ríkislistasafninu og þá var málverkum rænt. Segir hann að aðsókn hafi aukist að safninu og fólk hafi komið til að sjá auðan vegginn þar sem málverkin héngu.

390 milljarðar króna
Stofnunin Art Loss Register áætlar að listaverk, sem samtals séu metin á jafnvirði 390 milljarða króna, hafi lent í klónum á glæpamönnum á síðustu öld. Alþjóðalögreglan Interpol segir að listaverkaþjófnaður sé fjórða helsta glæpastarfsemin á eftir fíkniefnasölu, peningaþvætti og vopnasmygli.

Meðal nýlegra listaverkarána, þar sem verkin hafa ekki fundist aftur, má nefna eftirfarandi:

19. maí 2004
Pompidou listasafnið tilkynnir að málverkið Nature Morte a la Charlotte, eftir Pablo Picasson, hafi horfið af verkstæði safnsins en verkið er metið á jafnvirði um 250 milljónir króna.

27. ágúst 2003
Þjófar, dulbúnir sem ferðamenn, yfirbuga vörð í Drumlanrig kastala í Skotlandi og hafa á brott með sér verk eftir Leonardo da Vinci, sem metið er á allt að 5,8 milljarða króna.

20. júní 2003
Þjófar grafa sig inn í ríkislistasafn Paragvæ og stela tugum málverka. Lögregla segir að um 2 mánuði hafi tekið að grafa göngin inn í safnið.

22. desember 2000
Þrír vopnaðir og grímuklæddir menn ræna tveimur málverkum eftir Renoir og einu verki eftir Rembrandt úr sænska ríkislistasafninu og komast undan á hraðbáti. Lögregla fann síðar aðra Renoir-myndina fyrir tilviljun en hinna málverkanna er enn saknað.

18. mars 1990
Tveir menn, dulbúnir sem lögreglumenn, fremja stærsta listaverkarán sögunnar í Isabella Stewart Gardner í Boston í Bandaríkjunum. Þeir yfirbuguðu verði og höfðu á brott með sér málverk eftir Rembrandt, Vermeer, Manet og Degas sem samtals voru metin á um 300 milljónir dala, jafnvirði nærri 22 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert