Lögregla segist komin á slóð málverkaþjófa í Noregi

Málverkið Ópið, sem rænt var úr Munch safninu.
Málverkið Ópið, sem rænt var úr Munch safninu. AP

Lögregla í Noregi segist vera komin á spor þeirra sem stálu tveimur listaverkum eftir norska málarann Edvard Munch fyrir tveimur mánuðum. Þá réðust þrír grímuklæddir menn inn í Edvard Munch safnið í Ósló og höfðu á brott með sér myndirnar Ópið og Madonnu.

Ekkert hefur spurst til málverkanna eða þjófanna, sem taldir voru hafa framið ránið í von um að geta krafist lausnargjalds fyrir málverkin. Lögreglan hefur ekki tjáð sig opinberlega um rannsóknina.

En í dag sagði lögreglan, að rannsókn á bíl, sem ræningjarnir notuðu á flóttanum, Audi S4 skutbíl, hefði veitt mikilvægar vísbendingar þótt ræningjarnir hefðu sprautað úr slökkvitæki inn í bílinn til að fela hugsanleg fingraför.

Síðdegisblöðin Verdens Gang og Dagbladet sögðu einnig frá því í dag að búið væri að rekja eigendasögu bílsins og komist að raun um að hann hefði verið á bóndabæ í suðurhluta Noregs og verið í eigu nokkurra kunnra glæpamanna.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir, að rannsóknin beinist nú að því hvernig hefðu tengst ráninu og væri lögreglan komin á spor nokkurra manna. Lögreglumenn vildu ekki svara hvort ákveðnir einstaklingar lægju undir grun og þá hverjir þeir væru.

Munch safnið í Ósló var opnað á ný nokkrum dögum eftir ránið en því var lokað 28. september í mánuð á meðan úttekt verður gerð á öryggismálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert