Fundnir sekir um ránið á Ópinu og Madonnu

Þrír menn voru fundnir sekir um það í Osló í Noregi í morgun að ræna málverkunum Ópið og Madonna eftir Edvard Munch.

Tveir vopnaðir og hettuklæddir menn rændu verkunum úr Munch-safninu í Ósló þann 22. ágúst 2004 í viðurvist fjölmargra starfsmanna og ferðamanna. Þeir flúðu þvínæst af vettvangi á stolnum bíl, sem ekið var af félaga þeirra.

Alls voru sex manns ákærðir fyrir aðild að ráninu en þrír voru sýknaðir í dag. Héraðsdómur í Ósló taldi sannað, að Bjørn Hoen hefði tekið þátt í að skipuleggja ránið og var hann dæmdur í 7 ára fangelsi. Þá var talið sannað að Petter Tharaldsen hefði ekið flóttabílnum en hann var dæmdur í 8 ára fangelsi. Þeir tveir voru einnig dæmdir til að greiða Óslóborg 750 milljónir norskra króna, jafnvirði 9 milljarða íslenskra króna, í bætur fyrir málverkin, sem enn eru ófundin.

Þá var Petter Rosenvinge dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir að útvega bílinn en hann hélt því fram að hann hefði ekki vitað að nota ætti hann við rán.

Þrír hinna ákærðu voru hins vegar sýknaðir, þar á meðal Stian Skjold, sem lögregla taldi að hefði farið inn í Munch-safnið og tekið málverkin tvö af veggjunum. Thomas Nataas var einnig sýknaður en hann var ákærður fyrir að hafa haft málverkin í sinni vörslu eftir ránið. Sá þriðji, sem var sýknaður, var grunaður um að hafa tekið þátt í skipulagningunni.

Málverkunum var dænt úr Munch-safninu á Tøyen í Ósló. Tveir grímuklæddir menn ruddust inn í safnið og neyddu verði og gesti til að leggjast á gólfið. Annar ræninginn var vopnaður skammbyssu. Mennirnir klipptu strengi, sem málverkin tvö voru fest með og hlupu síðan með þau út. Fyrir utan safnið beið þriðji maðurinn í Audi skutbíl og ræningjarnir óku á brott. Bíllinn fannst skömmu síðar á öðrum stað í Ósló og hafði þá verið kveikt í honum.

Margt bendir til þess að myndirnar hafi skemmst í meðförum ræningjanna. Vitni, sem sá til ræningjanna, sagði að þeir hefðu sparkað í verkin til að fjarlægja rammana. Þá lágu málverkin um tíma í sendibíl.

Málverkanna er enn saknað og hafa yfirvöld í Noregi boðið 20 milljónir íslenskra króna hverjum þeim sem getur gefið upplýsingar um hvar þau sé að finna.

Málverkið Ópið, sem rænt var úr Munch safninu.
Málverkið Ópið, sem rænt var úr Munch safninu.
Málverkið Madonna eftir Munch.
Málverkið Madonna eftir Munch.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert