Munch-málverkin tvö voru ekki tryggð fyrir þjófnaði

Ræningjarnir hlaupa með málverkin út úr Munch safninu í gær.
Ræningjarnir hlaupa með málverkin út úr Munch safninu í gær. AP

Málverkin tvö eftir norska málarann Edvard Munch, sem rænt var úr Munch safninu í Ósló í gær, voru ekki tryggð fyrir þjófnaði, að sögn embættismanna. Þær voru hins vegar tryggðar fyrir bruna og vatnsskemmdum, að sögn Johns Oeyaas hjá Oslo Forsikring, sem sér um að tryggja eignir Óslóborgar. Verkin tvö, Ópið og Madonna, eru talin margra milljarða króna virði.

„Þetta eru ómetanleg verk og það væri fáránlegt að tryggja þau fyrir þjófnaði," sagði Oeyaas við AFP fréttastofuna.

Margir sérfræðingar töldu það í gær, að þar sem ekki yrði hægt að selja verkin vegna þess hve þau eru þekkt, hlytu ræningjarnir að ætla að krefjast lausnargjalds fyrir þau frá tryggingafélögum. Listaverkin í Munch safninu, 1100 málverk, 3000 teikningar og 18 rissblöð, eru tryggð fyrir jafnvirði nærri 5,5 milljarða króna, en sumir sérfræðingar telja að Ópið eitt sé þeirrar upphæðar virði.

Blaðið Verdens Gang segir í dag að norska lögreglan vinni eftir þremur kenningum. Sú fyrsta er að um sé að ræða rán sem framið sé eftir pöntun, önnur að ræningjarnir ætli að krefjast lausnargjalds fyrir verkin og sú þriðja að þeir hafi framið ránið til að vekja athygli á einhverju. Þetta fékkst ekki staðfest hjá lögreglunni í morgun.

Munch málaði fjórar útgáfur af Ópinu og á Munch safnið tvær, ríkislistasafnið eina og ein er í einkaeign. Verkinu var stolið úr ríkislistasafninu árið 1994 en það fannst þremur mánuðum síðar.

Norski netmiðillinn Nettavisen hefur eftir Leif A. Lier, sem stýrði rannsókninni árið 1994, segir að þeir sem rændu verkunum í gær hafi ekki borið sig sérlega fagmannlega að. Þeir hafi skilið eftir margar vísbendingar og muni væntanlega finnast fljótlega. Hann óttast hins vegar að málverkin kunni að hafa skemmst. Ópið er málað á pappaspjald og er mjög viðkvæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert