Munch safnið opnað á ný í dag

Gestur í Munch safninu skoðar grafíkmyndir sem Munch gerði eftir …
Gestur í Munch safninu skoðar grafíkmyndir sem Munch gerði eftir málverkinu Madonnu. AP

Munch safnið í Ósló var opnað á ný í dag en það var lokað í gær vegna ránsins á sunnudag þegar tveimur þekktust málverkum norska málarans Edvards Munchs var rænt. Veggirnir, þar sem málverkin héngu í safninu, voru auðir og sagði Gunnar Sørensen, safnstjóri, að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvort önnur verk yrðu hengd þar upp í stað verkanna sem rænt var.

Ræningjarnir og málverkin eru ófundin. Lögreglan í Ósló segir, að henni hafi borist fjöldi vísbendinga og einnig hafi gagna verið aflað, einkum í bíl sem ræningjarnir notuðu til að komast undan og skildu síðan eftir. Iver Stensrud, deildarstjóri hjá lögreglunni í Ósló, segir að ræningjarnir hafi tæmt úr slökkvitæki inni í bílnum til að fela spor sín.

Lögreglan er sögð vera að kanna hvort ránið hafi hugsanlega verið framið fyrir sérvitran listaverkasafnara sem vilji fá málverkin Ópið og Madonnu í safn sitt. Einnig er talið hugsanlegt að ræningjarnir muni krefjast lausnargjalds fyrir verkin og þá er ekki útilokað að þeir sem þarna voru að verki hafi einfaldlega viljað komast í heimsfréttirnar.

Þegar Munch safnið var opnað á ný í morgun færði Erling Lae, formaður borgarráðs Ósló, starfsmönnum safnsins blómvönd. Sagði hann að verðirnir í safninu hefðu verið í erfiðri aðstöðu og þeir hefðu staðið sig vel.

Safnið hefur hins vegar sætt gagnrýni fyrir slaka öryggisgæslu. Ræningjarnir tveir ruddust inn í safnið, miðuðu byssu á höfuð varðar, rifu síðan myndirnar af veggjunum og hlupu út. Málverkin tvö voru ekki tengd við þjófavarnakerfi og hengd á veggina með vír. Mörg listasafn geyma helstu dýrgripi sína í skotheldum glerkössum eða festa þau tryggilegar á veggina.

Starfsmenn safnsins hafa sagt að þetta sé fyrsta vopnaða listaverkaránið í Noregi og ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir það með öryggisráðstöfunum.

Blaðið Dagsavisen segir frá því í dag, að menntamálayfirvöld í Noregi hefðu látið safninu í té jafnvirði um 55 milljóna króna til að styrkja öryggiskerfið.

Þá bauð tímaritið Se og Hør jafnvirði 1 milljónar íslenskra króna í fundarlaun fyrir málverkin tvö. Þau hafa verið metin á allt að 7 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert