Enn óljóst hvað olli dauða Bhutto

Pervez Musharraf, forseti Pakistans
Pervez Musharraf, forseti Pakistans AP

Forseti Pakistans, Pervez Musharraf, neitaði í dag ásökunum um að herinn eða leyniþjónusta landsins hafi komið að morðinu á  Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtoga Þjóðarflokksins. Segir hann að enn sé óljóst hvað nákvæmlega hafi valdið dauða hennar.

Ekki fyllilega sáttur við rannsóknina

Á fréttamannafundi í dag sagðist Musharraf ekki vera fyllilega sáttur við rannsókn eigin ríkisstjórnar og því hafi hann beðið bresk stjórnvöld um aðstoð. Hann segir að enginn úr ríkisstjórn landsins né í leyniþjónustu Pakistans hafi neitt að fela.

Hann neitaði því að öryggisgæslu hafi verið ábótavant og tók það fram að Bhutto ætti einhverja sök að máli þar sem hún hefði veifað til stuðningsmanna sinna í gegnum sóllúgu á bifreiðinni sem hún var í. Enginn annar í bifreiðinni hafi særst í árásinni. „Hverjum er það að kenna að hún fór út úr bifreiðinni," sagði Musharraf.

Musharraf neitaði því jafnframt að al-Qaida hefði styrkt stöðu sína í Pakistan en bætti því við að landinu stæði aukin ógn af uppreisnarmönnum úr hópi talibana. Sagði hann að leiðtogar íslamskra hryðjuverkamanna,  Baitullah Mehsud og Maulana Fazlullah, bæru ábyrgð á 19 sjálfsvígsárásum í landinu síðastliðna þrjá mánuði. Á því tímabili hafa um 400 fallið í átökum tengdum uppreisnarmönnum og níu hundruð særst, að sögn Musharraf.

Daginn eftir morðið á Bhutto ásökuðu stjórnvöld Mehsud um að bera ábyrgð á árásinni en talsmaður hans neitaði því.  Musharraf gætti þess á blaðamannafundinum að ásaka Mehsud ekki beint um morðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert