Heimsmynd Breiviks úr tölvuleikjum?

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. Reuters

Norska lögreglan rannsakar nú ýmsa þætti í máli Anders Behrings Breiviks, sem myrti tugi manna í Ósló og á Utøya í júlí. Meðal annars kannar lögreglan hvort samtökin Musterisriddararnir, sem Breivik sagðist hafa stofnað, séu í raun úr tölvuleik.

Pål Fredrik Hjorth-Kraby, saksóknari hjá lögreglunni í Ósló, segir að þetta sé meðal þess sem verið er að rannsaka. Breivik segist hafa verið í tilteknum samtökum og því verði að rannsaka þær fullyrðingar. „Einn möguleiki er að þetta sé ekki raunveruleg samtök heldur ímynduð," hefur norska Dagbladet eftir honum. 

Breivik tók virkan þátt í tölvuleikjum á netinu og spilaði meðal annars leikinn World of Warcraft af kappi. Í stefnuskrá sinni, skrifaði Breivik, að þegar hann var 25 ára hafi hann ekki gert neitt annað í heilt ár en að spila World of Warcraft og hann hélt áfram að spila þennan leik og aðra tölvuleiki fram á þetta ár.

Dagbladet hefur eftir Roar Hansen, upplýsingafulltrúa lögreglunnar, að verið sé að rannsaka tölvunotkun Breiviks og notkun hans á samskiptanetmiðlum.

Geir Lippestad, verjandi Breiviks, segist einnig vilja rannsaka tengsl skjólstæðings síns við tölvuspil.

„Hann hefur ekki sagt annað en að hann hafi varið miklum tíma í slíka leiki. En ég er að skoða hvort orð hans og fullyrðingar kunni að vera sótt í tölvuleiki," segir Lippestad við Dagbladet.

Hann segir að Breivik noti ýmis hernaðarleg hugtök og noti einnig mörg ensk orð þegar verið er að yfirheyra hann. 

Þetta staðfestir lögreglan. „Hann notar mörg hernaðarhugtök í yfirheyrslunum. Ég veit ekki hvort þessi hugtök eru úr raunveruleikanum eða sýndarraunveruleikanum," segir Roar Hansen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert