Grafreitur skipsflaka á leitarsvæðinu

Inónesíski herinn leitar enn að flakinu úr lofti og á …
Inónesíski herinn leitar enn að flakinu úr lofti og á sjó. AFP

Fjölmörg flök skipa, m.a. frá síðari heimsstyrjöldinni, hvíla á botni Jövuhafs, þar sem flugvélar AirAsia er nú leitað. Skipin hafa sokkið á svæðinu bæði á ófriðar- og friðartímum.

Í dag sagði yfirmaður indónesíska björgunarteymisins sem stýrir leitinni að vélinni að málmhlutur hefði fundist á hafsbotninum en í ljós kom að líklega er um að ræða skip sem sokkið hefur á svæðinu.

Ekki er þó líklegt að um gamalt herskip sé að ræða en miklar sjóorrustur voru háðar í Jövuhafi í síðari heimsstyrjöldinni. Ein þeirra fór fram hinn 27. febrúar árið 1942 er her bandamanna, þ.e. Hollendinga, Bandaríkjamanna, Breta og Ástrala, þurfti að láta í minni pokann gegn Japansher. Bandamenn misstu fimm herskip í orrustunni og 2.300 hermenn. Skemmdir urðu á aðeins einu skipi Japana og féllu 36 hermenn þeirra.

Aðeins nokkrum dögum síðar, hinn 1. mars, sukku þrjú herskip bandamanna í enn einni orrustunni við Japani. Flök þessara herskipa hvíla enn á botni Jövuhafs og eru vinsælir áfangastaðir kafara.

Í ágúst í fyrra voru borin kennsl á eitt flakið, herskipið USS Houston sem sökk í orrustunni á svæðinu hinn 1. mars 1942.

Um 650 voru í áhöfn skipsins og fórust þeir allir. 

Í nóvember árið 2013 fannst svo óvænt flak þýsks kafbáts á svæðinu. Hann hafði orðið fyrir sprengju fyrir utan eyjuna Jövu í síðari heimsstyrjöldinni og sokkið. Um borð fundust sautján beinagrindur. Báturinn hét U-168. Hann sökkti mörgum herskipum bandamanna áður en Hollendingar sökktu honum árið 1944.

Japanir hertóku Indónesíu í síðari heimsstyrjöldinni en þá hét landið Hollensku Austur-Indíur.

Indónesískt herskip leitar á svæðinu.
Indónesískt herskip leitar á svæðinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert