Fimm stórir hlutar fundnir

Hægt gengur við leit að líkum þeirra sem fórust með farþegaþotu flugfélagsins AirAsia sem harpaði í lok síðasta árs á leiðinni frá borginni Surabaya í Indónesíu til Singapúr. Einungis hafa fundist tvö lík í dag samkvæmt frétt AFP. Samtals voru 162 um borð í þotunni þegar hún fórst en 39 lík hafa fundist til þessa að þeim meðtöldum.

Fram kemur í fréttinni að veðurfar og erfitt sjólag hafi gert leitarmönnum erfitt fyrir. Þá hefur flugriti farþegaþotunnar, svonefndur „svarti kassi“, ekki fundist enn en hann inniheldur upplýsingar um það hvað olli því að þotan hrapaði. Fimm stórir hlutar þotunnar hafa þó fundist á sjávarbotni og þar á meðal að líkindum stélið þar sem flugritinn er venjulega geymdur.

Kafarar hafa verið sendir niður að flakinu en þeim hefur gengið erfiðlega að rannsaka það vegna veðursins. Köfurunum hafi ekki tekist enn að komast að flakinu. Áhersla hafi ennfremur verið lögð á að finna lík þeirra sem voru um borð. Öll líkin sem fundist hafi til þessa hafi verið fljótandi á yfirborði hafsins. Sum séu enn fest með sætisbeltum við flugvélarsætin.

Sterkir hafstraumar eru á svæðinu og því hefur leitarsvæðið verið stækkað þar sem lík og brak úr farþegaþotunni kann að hafa rekið í burtu. Meðal þess sem fundist hefur á yfirborði sjávar auk líka þeirra sem fórust eru bakpokar, ferðatöskur, skór og barnastóll segir í fréttinni.

Talið er að slæmt veður hafi verið aðalástæðan fyrir því að farþegaþotan fórst. Ís hafi líklega skemmt hreyfla hennar. Hins vegar segir í fréttinni að óljóst sé hvers vegna veðrið hafði ekki áhrif á aðrar flugvélar sem voru á þessum slóðum á sama tíma.

Vonast er til þess að skýringar á því sé að finna í svarta kassanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert