Ekkert spurst til þyrlunnar

Bandarísk herþyrla í Nepal.
Bandarísk herþyrla í Nepal. AFP

Ekkert hefur enn spurst til björgunarþyrlunnar sem hvarf af ratsjám nærri Charikot í Nepal í gærdag. Um borð voru sex bandarískir landgönguliðar og tveir nepalskir hermenn en þeir eru hluti af björgunarliði sem sinnir mannúðaraðstoð á hamafarasvæðum þar í landi.

Þyrlan er af gerðinni UH-1 Huey og tilheyrir hún sveit landgönguliða Bandaríkjanna. Áhöfnin hafði nýlokið við að skila af sér vistum og hjálpargögnum til bágstaddra þegar allt samband við hana rofnaði.

Hefur varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna gefið það út að áhöfnin glímdi að líkindum við einhvers konar eldsneytis vandamál skömmu áður en þyrlan hvarf af ratsjám. Var hún þá stödd austan við höfuðborgina Katmandú.

Frá því að þyrlan hvarf hafa hermenn leitað úr lofti og á landi án árangurs. Er meðal annars notast við tvær bandarískar herþyrlur við leitina auk þess sem nepalskir hermenn leituðu á jörðu niðri í alla nótt. Talsmaður varnarmálaráðuneytisins ítrekar að engin ummerki um brotlendingu hafi enn fundist. Er hann því vongóður um að finna alla heila á húfi.

Þar sem engin ummerki eru um brotlendingu telja menn áhöfnina hafa nauðlent þyrlunni. Það svæði sem leitað er á er erfitt yfirferðar og er þar mjög slæmt talstöðvarsamband.

Um 300 banda­rísk­ir her­menn veita nú mannúðar- og neyðaraðstoð í Nepal vegna þeirra miklu jarðskjálfta sem hafa riðið yfir landið.  

Fyrri fréttir mbl.is:

Átta um borð í þyrlunni sem hvarf

Björgunarþyrla fórst í Nepal

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert