Snowden fær ekki sakaruppgjöf

167.000 skrifuðu undir áskorun þess efnis að Snowden yrði veitt …
167.000 skrifuðu undir áskorun þess efnis að Snowden yrði veitt sakaruppgjöf. AFP

Hvíta húsið hefur loksins brugðist við undirskriftasöfnun frá 2013, þar sem skorað var á stjórnvöld að veita Edward Snowden sakaruppgjöf og gera honum kleift að snúa aftur til Bandaríkjanna. Svar yfirvalda var í stuttu máli: Nei.

Fleiri en 167.000 skrifuðu undir bænaskjalið, en það var ekki nóg með að stjórnvöld höfnuðu því að fyrirgefa Snowden, heldur sökuðu þau hann einnig um hugleysi fyrir að fela sig í Rússlandi.

„Í stað þess að taka á málum á uppbyggilegan hátt, hafði ákvörðun Hr. Snowden að stela og deila leynilegum gögnum alvarlegar afleiðingar fyrir öryggi landsins, og fólksins sem vinnur að því dag og nótt að vernda það,“ sagði í svari Hvíta hússins.

„Hann ætti að snúa heim til Bandríkjanna, og vera dæmdur af kviðdómi jafningja sinna, ekki fela sig í skjóli valdboðsstjórnar. Á þessum tímapunkti er hann á flótta undan afleiðingum gjörða sinna.“

Svarið þykri í nokkri mótsögn við ummæli Eric Holder, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sem sagði fyrr í þessum mánuði að hugsalega væri leið fyrir Snowden að komast að samkomulagi við stjórnvöld um að snúa heim. Holder sagði reyndar einnig að Snowden hefði betur viðrað áhyggjur sínar við þingið frekar en að leka gögnum til fjölmiðla.

Það vekur athygli að í tilkynningunni frá Hvíta húsinu var einnig komið inn á hvernig Barack Obama forseti hefði unnið með þinginu til að koma á umbótum til að finna jafnvægi milli réttinda einstaklinga og aðferða þjóðaröryggissérfræðinga við að afla upplýsinga til að vernda bandaríska borgara.

Þær umbætur sem ráðist hefur verið í virðast fela í sér viðurkenningu á því að pottur var víða brotinn, líkt og uppljóstranir Snowden þykja hafa leitt í ljós.

Huffington Post sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert