Fjölskyldan nánast þurrkuð út

Malasíski ferðamaðurinn Neoh Hock Guan ætlaði að fara að biðja í Erawan helgidómnum þegar hann missti kertið sem hann ætlaði að kveikja á. „Þegar ég beygði mig niður til þess að taka það upp þá heyrði ég sprengingu,“ segir Neoh í viðtali við Malay Mail. „Það næsta sem ég vissi var að enginn í fjölskyldunni minni var sjáanlegur.“

Eiginkona Neohs, sonur, tengdasonur og fjögurra ára gamalt barnabarn lést í sprengingunni í fyrradag í miðborg Bangkok. Sprengingin var gríðarleg og þeyttist málmur út um allt ásamt líkamsleifum fórnarlamba árásarinnar. 

Yfirvöld í Taílandi leita nú að manni sem klæddur var gulri skyrtu og var með bakpoka. Hann sést á öryggismyndavél við Erawan, helgidóm hindúa. Er álitið að hann hafi komið þar fyrir bakpoka með sprengju.

„Náunginn í gulu skyrtunni er ekki bara grunaður, hann er sprengjumaðurinn,“ sagði yfirmaður í lögreglunni, Prawut Thavornsiri, í samtali við fréttamenn.

Annarri sprengju var í gær kastað á stað nálægt járnbrautarstöðinni Saphan í Bangkok og sprakk hún við ferjubryggju en enginn særðist.

Erawan-helgidómurinn er á fjölförnum gatnamótum, Rachaprasong, þar sem skammt er í dýr hótel er margir ferðamenn gista. Helgidómurinn hefur verið opnaður á nýjan leik fyrir gestum.

Næstu klukkustundir voru skelfilegar í lífi Neohs sem er 55 ára gamall. Af þeim sjö í fjölskyldunni sem voru við helgidóminn eru aðeins hann og þunguð dóttir hans á lífi. Enn hefur ekki tekist að bera kennsl á mágkonu hans en hún var einnig með þeim í ferðalaginu.

Að minnsta kosti tuttugu létust í tilræðinu, þar af eru ellefu útlendingar. Yfir 100 eru særðir. 

Tvítugur sonur Neohs, Neoh Jai Jun, var í námi í Taívan en hann hafði komið heim til þess að taka þátt í leyfi fjölskyldunnar. Á mynd sem  var tekin nokkrum tímum fyrr sést Neoh, sem starfar sem kökusali, ásamt fjölskyldunni brosandi út að eyrum á veitingastað í Bangkok. Sonurinn lést ásamt Lim Saw Gek, eiginkonu Neohs og tengdasyni,  Lee Tze Siang. Eins lést dótturdóttir hans, Lee Jing Xuan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert