Sprengjumaðurinn hluti af samtökum

Frá minningarathöfn vegna árásarinnar.
Frá minningarathöfn vegna árásarinnar. AFP

Sprengjuárásin sem varð 20 manns að bana í Bangkok í Tælandi á mánudaginn var skipulögð af samtökum. Þetta segir yfirmaður lögreglunnar í Bangkok við fjölmiðla. 

Lýst hefur verið eftir karlmanni sem náðist á öryggismyndavélum á svæðinu stuttu fyrir sprengingarnar. Hann skildi eftir bakpoka á þeim stað sem sprengingin varð. Lögreglan hefur látið teiknara útbúa mynd af honum svo hægt sé að lýsa eftir honum. Engin hryðjuverkasamtök hafa viðurkennt að bera ábyrgð á árásinni en nú heldur lögreglan því fram að maðurinn sem lýst er eftir sé huti af stærri samtökum.

„Hann var ekki einn að verki, svo mikið er víst. Þetta eru samtök,“ sagði Somyot Poompanmoung, lögreglustjóri í Bangkok í samtali við AP.

Árásirnar beindust að helgistað sem er vinsæll ferðamannastaður og er talið að árásin hafi sérstaklega verið beint að ferðamönnum. Ekki er vitað hver hinn eftirlýsti maður sé, en samkvæmt talsmanni lögreglunnar er hann sennilega af „blönduðum uppruna.“

Búið er að lofa hverjum þeim sem veitir upplýsingar sem leiða til handtöku mannsins tæpar fjórum milljónum Bandaríkjadala.

Forsætisráðherra Tælands hefur hvatt mannin til að gefa sig fram til lögreglu, því annars sé hætta á því að hann „verði myrtur áður en hann nær að útskýra mál sitt.“

Sjá frétt BBC.

Mynd af hinum eftirlýsta manni úr öryggismyndavél.
Mynd af hinum eftirlýsta manni úr öryggismyndavél. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert