Hyggjast ganga 240 kílómetra

Meðal þeirra hundruða sem hyggjast fara fótgangandi til Austurríkis eru …
Meðal þeirra hundruða sem hyggjast fara fótgangandi til Austurríkis eru fatlaðir, aldraðir og börn. AFP

Hundruð flóttamanna sem setið hafa fastir á lestarstöð í Búdapest síðustu daga hafa lagt í hann og hyggjast fara fótgangandi til Austurríkis, en yfirvöld í Ungverjalandi hafa freistað þess að hamla för þúsunda flóttamanna á leið þeirra til vesturhluta Evrópu.

Leiðin frá Búdapest til Vínar er um 240 kílómetra löng.

Enn ríkir pattstaða á Bicske-lestarstöðinni, þar sem farþegar lestar neita að fara frá borði og láta skrá sig í nálægum búðum. Hundruðir hafa flúið flóttamannabúðir í Roszke, nærri landamærum Serbíu, og er veitt eftirför af lögreglu.

Fólkið á göngu gegnum Búdapest.
Fólkið á göngu gegnum Búdapest. AFP

Ungverska þingið hefur samþykkt að herða landamæraeftirlit og viðurlög gagnvart þeim sem reyna að fara um landið áleiðis til Þýskalands. Leiðtogar Ungverjalands, Póllands, Tékklands og Slóvakíu sitja nú fund í Prag vegna flóttamannavandans, sem flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hefur lýst sem „ögurstundu“ fyrir Evrópu.

Fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eru á grísku eyjunni Kos, til að kynna sér þá erfiðleika sem þar blasa við vegna mikils fjölda flóttafólks sem þangað ferðast. Þá funda utanríkisráðherrar aðildarríkja sambandsins í Brussel í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert