Móðir og ungbarn drukknuðu

Móðir og ungabarn fundust látin eftir að bátur þeirra sökk. …
Móðir og ungabarn fundust látin eftir að bátur þeirra sökk. Minnst 30 manns er enn saknað. AFP

Móðir og ungbarn drukknuðu úti fyrir ströndu ítölsku eyjunnar Lampedusa í gær. 30 manns er enn saknað.

Samkvæmt umfjöllun BBC yfirgáfu bátarnir tveir Túnis með 48 og 42 manns um borð hvor um sig og hófu svaðalega siglingu yfir Miðjarðarhafið.

Ítalska landhelgisgæslan bjargaði 57 manns eftir að bátarnir sukku í gær og fann við leit lík móðurinnar og barnsins, sem var eins árs gamalt. 

Send út í opinn dauðann 

Fólkið um borð var allt farandfólk á leið til Evrópu með hjálp smyglara í Túnis. Emanuele Ricifari, lögreglustjóri á svæðinu sem hefur yfirumsjón með rannsókn málsins, sagði smyglarana í Túnís hafa vísvitandi sent fólkið út í ólgusjó.

„Hver sá sem hleypti þeim, eða neyddi þau til að halda út í þessar aðstæður, er samviskulaus glæpamaður og brjálæðingur,“ sagði Ricifari og biðlaði til smyglara að senda ekki fleiri báta á næstu dögum vegna veðurspár.

„Að senda þau út í þessu veðri er að senda þau út í opinn dauðann.“

Lögreglustjóri segir það dauðadóm að senda fólk út í slíkan …
Lögreglustjóri segir það dauðadóm að senda fólk út í slíkan ólgusjó. AFP

Ný lög gera björgunarsamtökum erfitt fyrir

Undanfarna daga hafa ítalskir landamæravörslubátar og hjálparsamtök bjargað 2.000 manns til viðbótar við strendur eyjunnar.

Björgunarsamtökin Open Arms sögðust hafa siglt í tvo daga í ólgusjó til að hleypa 195 manns frá borði í Brindisi-höfn á Ítalíu, eftir að stjórnvöld neituðu að úthluta þeim höfn í suðri, nær leitar- og björgunarsvæðinu í Miðjarðarhafinu.

Hjálparsamtök sem halda úti björgunarskipum hafa ítrekað sagt hægristjórn forseta Ítalíu, Giorgiu Meloni, gera sér erfitt fyrir í starfi.

Yfirvöld samþykktu nýlega ný lög sem heimila þeim að senda björgunarskip í norðlægar hafnir fjarri leitar- og björgunarsvæðum, en að sögn hjálparsamtaka sóar það dýrmætum tíma og eldsneyti sem annars yrði varið í frekari björgunaraðgerðir.  

Skip Proactiva Open Arms. Björgunarsamtök segja ítölsk yfirvöld gera þeim …
Skip Proactiva Open Arms. Björgunarsamtök segja ítölsk yfirvöld gera þeim erfitt fyrir í björgunaraðgerðum. AFP

Sennilega mörg slys sem ekki fréttist af

Innanríkisráðuneytið á Ítalíu segir óreglulega fólksflutninga yfir Miðjarðarhafið hafa tvöfaldast síðan í fyrra; fjöldinn nemi nú um 92.000 manns en hafi verið 42.600 árið 2022. 

Um 1.800 manns á flótta hafa látist á þessu ári í för sinni yfir Miðjarðarhafið, en að sögn alþjóðleg­ra sam­taka um mál­efni flótta­fólks (IOM) er sú tala líklega mun hærri. 

„Mörg lík eru að finnast til sjávar sem bendir til þess að fjöldi sjóslysa hafi átt sér stað sem við vissum ekki af,“ segir talsmaður samtakanna, Flavio Di Giacomo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert