Morðrannsókn harðlega gagnrýnd

Amanda Knox og Raffaele Sollecito voru endanlega sýknuð fyrr á …
Amanda Knox og Raffaele Sollecito voru endanlega sýknuð fyrr á þessu ári. AFP

Æðsti áfrýjunardómstóll Ítalíu hefur gagnrýnt rannsókn lögreglu á morðinu á breska námsmanninum Meredith Kercher árið 2007. Dómstóllinn segir að augljós mistök hafi verið gerð. Dómstóllinn sýknaði Amöndu Knox og Raffaele Sollecito, fyrrverandi unnusta Knox, af morðákærunni í mars sl.

Dómstóllinn segir að engin lífsýni, þ.e. hvorki úr Knox né Sollecito, hafi fundist á líkinu og ekki heldur í herberginu þar sem hún var myrt. 

Kercher var stunginn til bana í íbúð sem hún leigði með Knox í Perugia. Kercher var 21 árs þegar hún lést. 

Dómstóllinn birti í dag dóminn eins og honum er skylt að gera samkvæmt ítölskum lögum. 

Þar kemur fram hörð gagnrýni á rannsókn lögreglu. Dómararnir segja að sú mikla athygli sem málið fékk í fjölmiðlum hefði haft áhrif á rannsakendurna. 

„Kastljós alþjóðlegra fjölmiðla leiddi til þess að rannsókninni var skyndilega hraðað,“ segir dómstóllinn. 

Knox og Sollecito voru upphaflega sakfelld árið 2009. Þeim var sleppt úr haldið árið 2011 þegar dómnum var snúið við, en annar dómstóll staðfesti sakfellingu þremur árum seinna. 

Knox og Sollectio hafa ávallt haldið fram sakleysi sínu og málinu lauk endanlega í mars þegar áfrýjunardómstóllinn kvað upp sinn dóm. 

Annar karlmaður, Rudy Hermann Guede, var fundinn sekur um morðið í öðru réttarhaldi. Maðurinn, sem fæddist á Fílabeinsströndinni, hlaut 16 ára fangelsisdóm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert