„Sonur þinn er á lífi, ekki gráta mamma“

Um 250 Suður-Kóreumenn, mestmegnis eldri borgarar, fóru í dag til Norður-Kóreu til fundar við ættingja sem þau höfðu ýmist aldrei séð eða ekki hitt í hartnær 60 ár.

Eins og sést á meðfylgjandi myndskeiði var fundurinn tilfinningaþrunginn. Eftir að hafa ekið gegnum hin víggirtu landamæri landanna var fólkinu ekið að herragarðinum við Kumgagn-fjall þar sem það hitti syni, dætur og systkini sem það hafði verið skilið frá vegna stríðsins sem enn er tæknilega í gangi milli landanna tveggja.

Meðal þeirra var Jung Gun-Mok, 64 ára, sem var rænt af Norður-Kóreumönnum árið 1972 þar sem hann var við veiðar á fiskveiðiskipi í Gulahafi, og móðir hans, hin 88 gamla Lee Bok-Soon. Jung var ungur maður síðast þegar þau sáust.

„Sonur þinn er á lífi, ekki gráta mamma,“ sagði Jung, sem faðmaði móður sína að sér og þurrkaði tárin sem runnu niður kinnar hennar með vasaklút. Þau eru meðal örfárra íbúa Norður- og Suður-Kóreu sem fá tækifæri til að hitta ættingja sína með þessum hætti í kjölfar samkomulags sem undirritað var milli landanna fyrir fimm árum til að draga úr spennu á Kóreuskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert