Tveimur bjargað úr rústunum

Tveimur var bjargað úr rústum fjölbýlishúss í borginni Tainan á eyjunni Taívan í nótt, 50 klukkustundum eftir að jarðskjálftinn reið yfir.

Að sögn AFP-fréttastofunnar var manni bjargað úr rústunum með krana og nokkru áður hafði konu verið bjargað á lífi úr rústum Wei-kuan-byggingarinnar.

Björgunarmenn höfðu reynt að moka manninn, Lee Tsong-tian, 40 ára, úr rústunum í meira en 20 klukkustundir en ekki hafði tekist að ná honum upp vegna þess að annar fótur hans var fastur undir miklu fargi. Að sögn borgarstjórans í Tainan, Williams Lais, ræddi hann við Lee skömmu eftir björgunina. Hann segir að Lee hafi getað talað við systur sína en ekki er vitað hvort hægt verði að bjarga fæti hans. 

Lai hafði áður sagt fréttamönnum frá því að læknar hefðu náð að komast að Lee í rústunum og ætlað að aflima hann en það hefði ekki tekist. 

Konunni var bjargað eftir að björgunarmenn höfðu heyrt hana kalla á hjálp. Eiginmaður hennar og tveggja ára barn þeirra voru hins vegar látin. Fimm ættingja konunnar er enn leitað í rústunum. Talið er að um 100 íbúar séu enn fastir í húsarústunum en fjölbýlishúsið hrundi til grunna í jarðskjálfta upp á 6,4 stig á laugardag. 

Staðfest hefur verið að 37 eru látnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert