Verktaki byggingar sem hrundi handtekinn

Enn er leitað í rústunum.
Enn er leitað í rústunum. AFP

Verktaki byggingar sem hrundi í jarðskjálfta sem skók Taívan á laugardaginn hefur nú verið handtekinn en að minnsta kosti 39 létu lífið í Weiguan Jinlong íbúðarhúsinu í borginni Tainan. Um 320 hefur verið bjargað en talið er að rúmlega 100 manns séu enn grafnir undir rústunum.

Weiguan Jinlong er ein af fáum byggingum sem varð fyrir miklum skemmdum í skjálftanum og hefur því skapast umræða um gæði byggingarinnar.

Eftir því sem tíminn líður frá skjálftanum eru minni líkur á því að finna lifandi fólk í rústunum. Mörg hundruð manns taka þátt í björgunaraðgerðum, ásamt leitarhundum og krönum.  

Samkvæmt frétt BBC er nú verið að rannsaka hvort að illa hafi verið staðið að byggingu Weiguan Jinlong og hvort rekja megi skemmdirnar í skjálftanum til þess.

Skjálftinn var 6,4 stig á Richter. Aðeins nokkur hús skemmdust verulega, en í landinu eru strangar reglur um nýbyggingar.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert