Útiloka ekki hryðjuverk

Frá München í dag.
Frá München í dag. AFP

Talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, segir í samtali við þýsku sjónvarpsstöðina ARD að ekki sé útilokað að skotárásin í München í dag hafi verið hryðjuverk.

„Við útilokum ekkert. Ég var í nánu sambandi við innanríkisráðherra Bæjaralands seinni partinn í dag og í kvöld. Kanslarinn er upplýstur um stöðu mála og allt sem við getum sagt að svo stöddu er að þetta var miskunnarlaus og grimmileg árás.“

„Við getum ekki útilokað að um hryðjuverk hafi verið að ræða, við getum ekki staðfest það en við rannsökum málið sem slíkt.“

Í yfirlýsingu segist Joachim Gauck, forseti Þýskalands,  vera skelfingu lostinn vegna árásarinnar. „Ég er með öll fórnarlömbin í huga mínum og alla þá sem syrgja eða óttast um ástvini.“

Evrópumálaráðherra Þjóðverja, Michael Roth, segir á Twitter-reikningi sínum, að ótti megi ekki sigra frelsið og að hann syrgi fórnarlömb árásanna.

Bandaríkjaforseti hét Þjóðverjum öllum þeim stuðningi sem þeir gætu þurft á að halda, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. „Við vitum ekki enn hvað er að gerast nákvæmlega, en hugur okkar er hjá þeim sem kynnu að hafa særst.“

Hilary Clinton, forsetaframbjóðandi demókrata, segist fylgjast með ástandinu og standa með Þjóðverjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert