Flóðbylgjur skella á Nýja-Sjálandi

Slökkviliðsbifreið á Nýja-Sjálandi.
Slökkviliðsbifreið á Nýja-Sjálandi. Wikipedia

Fljóðbylgjur eru byrjaðar að skella á austurströnd Nýja-Sjálands í kjölfar öflugs jarðskjálfta sem skók landið í morgun. Margir eftirskjálftar hafa fylgt og gáfu yfirvöld út flóðbylgjuviðvörun í kjölfarið. Voru íbúar strandhéraða í nágrenni þess staðar sem upptök skjálftans voru á hvattir til þess að yfirgefa heimili sín og halda upp til landsins vegna hættu á flóðbylgju.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að þær flóðbylgjur sem skollið hafi á austurströnd Nýja-Sjálands til þessa séu í minni kantinum eða um tveir metrar á hæð en yfirvöld hafi varað við því að stærri flóðbylgjur gætu komið í kjölfarið. Ljóst er að skjálftinn hefur valdið talsverðu eignatjóni en ekki hafa borist fregnir af manntjóni í kjölfar hans.

Jarðskjálftinn olli því meðal annars að símalínur slitnuðu víða um land sem og raflínur sem valdið hefur rafmagnsleysi víða. Samgöngur víða liggja sömuleiðis niðri í kjölfar skjálftans. Ferjusiglingum á svæðinu hefur meðal annars verið frestað þar til ljóst er hvort skemmdir hafi orðið á höfnum þar sem ferjur leggjast að. 

Fréttir herma að skjálftans hafi orðið vart víða um landið. Þar á meðal í borginni Auckland í norðurhluta þess og höfuðborginni Wellington. Þar hafi fólk hlaupið út á götur af hræðslu. Sumir grátandi. Jarðskjálfti árið 2011 sem kostaði 185 manns lífið og lagði miðborg borgarinnar Christchurch í rúst er íbúum hennar enn í fersku minni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert