Ferðamenn þakklátir fyrir björgun

Lokið er við að bjarga öllum ferðamönnum sem lokuðust inni í bænum Kaikoura á Suðureyju á Nýja-Sjálandi í jarðskjálftanum sem reið yfir á sunnudag. Síðustu þeirra voru fluttir á brott í dag með herskipi. Ekki var hægt að komast í bæinn landleiðina eftir að fjölmargar skriður féllu á veginn þegar jarðskjálfti upp á 7,8 stig reið yfir. Herskipið HMNZS Canterbury fór og sótti síðustu ferðamennina í dag og var áhöfn þess ákaft fagnað af ferðamönnum sem dönsuðu og fögnuðu af gleði við að komast frá bænum.

Auk herskipsins tóku flutningaskip frá Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu þátt í björguninni. Eins að flytja nauðsynjar til bæjarins og önnur gögn. Þegar skjálftinn reið yfir voru um eitt þúsund ferðamenn í Kaikoura en bæjarbúar eru um 2 þúsund talsins. Flestir ferðamenn sem þangað koma fara í hvalaskoðunarferðir en bærinn er heimsfrægur fyrir gott aðgengi að hvölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka