Innlyksa ferðamenn sóttir á þyrlu

Aurskriður hafa lokað veginum að strandbænum Kaikoura.
Aurskriður hafa lokað veginum að strandbænum Kaikoura. AFP

Herinn á Nýja-Sjálandi vinnur nú að því að sækja ferðamenn sem urðu innlyksa í Kaikoura eftir jarðskjálftann um helgina. Fjöldi harðra eftirskjálfta hefur fylgt. 

Mörg hundruð ferðamenn urðu innlyksa í Kaikoura, einum vinsælasta ferðamannastað Nýja-Sjálands, vegna skriðufalla sem lokuðu vegum að svæðinu. Drykkjarvatn er af skornum skammti og í frétt New Zealand Herald segir að vatnið muni aðeins endast í um þrjá sólarhringa í viðbót. Öflugur eftirskjálfti, sem mældist 5 stig, varð í dag um 10 kílómetra austur af Kaikoura.

Ferðamennirnir verða sóttir á þyrlum og herskipum. Þá flytja skipin einnig neyðarbirgðir til svæðisins. 

Um 400 eftirskjálftar hafa mælst í kjölfar þess stóra sem mældist 7,5 stig. Tveir létust í skjálftanum. 

Íbúar í höfuðborginni Wellington eru nú að undirbúa sig fyrir óveður sem mun skella á um hádegi að staðartíma. Talið er að veðrið geti valdið frekari skemmdum í borginni. Nokkur hverfi hennar hafa verið rýmd í kjölfar skjálftanna. 

Vegir fóru víða í sundur og malbikið gekk í bylgjum …
Vegir fóru víða í sundur og malbikið gekk í bylgjum er skjálftinn reið yfir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka