Sagði samkynhneigð hafa valdið skjálftunum

Þjóðvegurinn suður af Kaikoura á Nýja Sjálandi er meðal þeirra …
Þjóðvegurinn suður af Kaikoura á Nýja Sjálandi er meðal þeirra staða þar sem miklar skemmdir urðu í jarðskjálftunum. AFP

Prestur á Nýja Sjálandi sætir nú mikilli gagnrýni fyrir að segja að samkynhneigð kunni að vera orsök jarðskjálfta þar í landi. Jarðskjálfti upp á 7,8 varð tveimur að bana í Nýja Sjálandi í síðustu viku og olli miklu tjóni.

Presturinn Brian Tamaki sem er stjórnandi Destiny kirkjunnar, sem útleggja má sem Forlagakirkjuna, birti predikun á Facebook-síðu sinni þar sem hann fullyrti að náttúruhamfarir á borð við jarðskjálfta væru laun syndarinnar og nefndi þar sérstaklega giftingar samkynhneigðra.

Fréttavefur BBC segir að efnt hafi verið til undirskriftasöfnunar á netinu, sem 100.000 manns hafi undirritað nú þegar, þar sem hvatt er til þess að kirkjan verði flokkuð sem haturssamtök og missi þar með skattleysi trúarsamtaka.

Tamaki flutti predikunina upphaflega tæpri viku fyrir skjálftann, en hún var síðar birt á Facebook  undir þeim formerkjum að hún væri „spádómur“ prestsins.

„Í þriðju Mósesbók segir að jörðin engist undan ákveðnum mannlegum syndum. Það eru náttúruhamfarir,“ sést Tamaki segja í myndbandsupptöku af predikuninni.

Hann ræddi því næst um borgina Christchurch á Nýja Sjálandi þar sem 185 manns fórust í jarðskjálftum árið 2011 og sagði borgina vera „allt nema kirkju Krists [e. Christ‘s Church].

„Í borginni var var hæsta morðatíðnin. Hún var sannkallað skjól fyrir þá sem voru andsnúnir Kristi að öllu leiti. Það var þingmaður þeirrar borgar sem fyrst lagði til lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra í þessu landi,“ sagði Tamaki.

Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar ætla að afhenda John Key, forsætisráðherra Nýja Sjálands, undirskriftalistana. En Key hefur þegar sagt fullyrðingar prestsins vera „fáránlegar“.

„Nýja Sjáland er á jarðskjálftasvæði. Það er á vel þekktum flekaskilum. Þetta hefur ekkert með kynferði fólks að gerast,“ sagði Key í viðtali við nýsjálenska útvarpsstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka