„Blóð alls staðar“

Þeir komu til að fagna nýja árinu í Istanbúl, á skemmtistaðnum Reina með útsýni yfir Bospórus-sundið. En þegar aðeins klukkustund var liðin af árinu 2017 höfðu þeir Yunus Turk og Yusuf Kodat neyðst til að fela sig fyrir byssumanni, sem var staðráðinn í að myrða alla þá sem hann kom auga á.

„Við heyrðum tvo eða þrjá hvelli, og það voru slagsmál sem brutust út fyrir framan okkur, en við hugsuðum ekki mikið um það á þeirri stundu,“ segir Turk í samtali við fréttamann AFP.

„Skelfingu lostið fólk“

„Svo eftir tíu eða fimmtán sekúndur kom hann inn og byrjaði að skjóta. Það var þá sem við hugsuðum: þetta er árás, þetta er skotárás,“ segir Turk.

Frændurnir, sem búa í Alsace í Norðaustur-Frakklandi, höfðu ákveðið að taka á móti nýju ári í evrópska hluta tyrknesku borgarinnar.

En klukkan 01.15 eftir miðnætti, eða 22.15 að íslenskum tíma á gamlárskvöld, kom vopnaður maður að inngangi skemmtistaðarins, skaut tvo, og gekk að því búnu inn.

Þegar sjö mínútna morðæðiskasti hans var lokið lágu 39 manns í valnum, meirihluti þeirra útlendingar sem þangað höfðu ferðast í jólaleyfi sínu.

„Ég hugsa til baka til þessara augnablika, ég get ekki þurrkað þau úr minninu. Skelfingu lostið fólk, blóðið, skothvellirnir, sprengingarnar. Það er það sem ég get ekki hætt að hugsa um,“ segir Kodat.

Byssumaðurinn lætur til skarar skríða. Skjáskot af upptöku eftirlitsmyndavélar.
Byssumaðurinn lætur til skarar skríða. Skjáskot af upptöku eftirlitsmyndavélar. AFP

Allir lágu undir grun

Þar sem byssumaðurinn náðist ekki á vettvangi, gekk hægt að rýma skemmtistaðinn. Voru gestir beðnir af lögreglu að rétta upp hendur á meðan þeir gengu út, einn í einu.

Turk segir að þeir hafi verið leiddir út í gegnum kjallarann, til að forðast það að sjá dansgólf staðarins.

„En það voru þegar nokkur lík á veröndinni, blóð alls staðar og glerbrot.“

Tólf handteknir eftir árásina

Samtökin Ríki íslams hafa þegar lýst árásinni á hendur sér, en enn stendur yfir viðamikil leit að sjálfum árásarmanninum. Hefur lögregla ráðist inn í nokkur hús í borginni og handtekið tólf manns í tengslum við rannsóknina.

Aðstoðarforsætisráðherrann Numan Kurtulmus segir yfirvöld hafa náð fingraförum og einfaldri lýsingu af útliti mannsins, og heitir því að bera fljótt og örugglega kennsl á hinn grunaða.

Maðurinn skaut á milli 120 og 180 kúlum meðan á árásinni stóð og skipti svo um föt áður en hann flúði af vettvangi. Í kringum 600 manns voru á skemmtistaðnum þegar hann lét til skarar skríða, að því er fram kemur í frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka