Fönguðu alræmda glæpakonu á ný

AFP

Öryggissveitir í El Salvador hafa fangað alræmda glæpakonu sem slapp úr fangelsi í Gvatemala fyrir tveimur vikum. 

Hin 45 ára gamla Marixa Lemus var dæmd í 94 ára fangelsi árið 2015 fyrir að vera höfuðpaur glæpagengis sem sérhæfði sig í leigumorðum og mannránum. Skipulagði hópurinn meðal annars sprengjuárás á borgarstjóra Moyuta í desember 2013, en hann slapp ómeiddur frá árásinni.

Þá hefur hún einnig verið ákærð fyrir að hafa fyrirskipað morðið á eiginmanni sínum árið 2013, en réttarhöld hafa enn ekki farið fram í málinu.

Lemus hefur gengið undir viðurnefninu „The Boss“ eða foringinn, en hún var handtekin í vesturhluta El Salvador, nálægt landamærunum að Gvatemala, í dag. Hafði hún litað hár sitt ljóst til að reyna að villa á sér heimildir.

Lemus slapp úr fangelsinu 11. maí sl. en því er stjórnað af hermönnum og mikil öryggisgæsla er þar. Nokkrir fangaverðir sem áttu að fylgjast með henni voru í kjölfarið handteknir og sett var af stað alþjóðleg leit.

Lemus hefur áður reynt að sleppa úr öðru fangelsi sem hún var í, en þá fangaði lögregla hana í skóglendi stutt frá fangelsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert