Sýna eineygða ungbarninu samstöðu

Margir hafa birt myndir af sér að halda fyrir annað …
Margir hafa birt myndir af sér að halda fyrir annað augað til að sýna samúð og samstöðu með Karim litla sem missti auga í árás í Sýrlandi. AFP

Myndir af sýrlenskum dreng sem missti annað augað og hlaut alvarlega höfuðáverka í árás stjórnarhersins hefur orðið til þess að fjölmargir hafa birt myndir af sér að halda fyrir annað augað til að sýna litla drengnum samúð og samstöðu.

Karim er aðeins tveggja mánaða gamall. Hann særðist í árás sem gerð var á markað í Austur-Ghouta í nágrenni höfuðborgarinnar Damaskus 29. október. Móðir hans lést í árásinni.

Um 400 þúsund manns búa í borgum og bæjum héraðsins sem hefur verið í herkví stjórnarhersins frá því árið 2013. Á síðustu vikum hefur ástandið í héraðinu hríðversnað og árásir verið tíðar. 

Karim Abdallah missti vinstra auga sitt í árás stjórnarhersins í …
Karim Abdallah missti vinstra auga sitt í árás stjórnarhersins í Sýrlandi. AFP

Rauði krossinn segir að ástandið á svæðinu sé tvísýnt og að nær ómögulegt sé að draga þar fram andann. Um 500 manns bíða þess að komast þaðan til að fá nauðsynlega læknisþjónustu. Alvarlegur matarskortur ríkir og sömuleiðis er mikill skortur á lyfjum og öðrum nauðsynjum. Þá er þar nú kalt í veðri sem eykur enn á raunir fólksins sem þar er og kemst hvergi.

Myndir af Karim litla voru fyrst birtar í lok nóvember. Síðan þá hafa sífellt fleiri sýnt litla drengnum samstöðu með því að birta myndir af sér að halda fyrir annað augað. Á samfélagsmiðlum notar fólk myllumerkið #SolidarityWithKarim (#SamstaðameðKarim) til að vekja athygli á þeim hörmungum sem börn í Austur-Ghoutha þurfa að upplifa.

Í síðustu viku komst þessi herferð á samfélagsmiðlum á mikið flug undir forystu ljósmyndarans Amer al-Mohilbany.

„Markmiðið með herferðinni er að færa þessu barni rödd í heiminum, hann missti annað augað og móður sína,“ segir ljósmyndarinn í samtali við AFP-fréttastofuna.

Karim litli þarf stöðuga ummönnun vegna áverkanna sem hann hlaut. Faðir hans og fjögur systkini hugsa nú um hann.

Frá því á mánudag hafa yfir 26 þúsund færslur birst á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #SolidarityWithKarim.

Fjölmargir Sýrlendingar eru í hópi þeirra sem birt hafa myndir af sér með annað augað falið. Starfsmenn sjúkrahúss í Sýrlandi eru þeim heim hópi.

Í þeim hópi eru einnig björgunarmenn sem tilheyra hópi sem kallar sig Hvítu hjálmana. 

Saga Karims litla hefur einnig náð eyrum stjórnmálamanna og blaðamanna víða um heim. Þannig birti fréttastofa þýska blaðsins Bild myndir af sér í anda herferðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert