Eiríkur Tómasson: „Aðferðinni við skipunina verður að breyta“

Eiríkur Tómasson.
Eiríkur Tómasson.

„Ég tel þessa ákvörðun setts dómsmálaráðherra gagnrýnisverða þar sem ráðherra dómsmála hefur nú tvívegis gengið gegn tillögu Hæstaréttar um skipun hæstaréttardómara,“ segir Eiríkur Tómasson prófessor, en hann var annar tveggja umsækjenda um starfið sem Hæstiréttur taldi hæfasta í embættið.

„Þetta segir mér að við getum ekki lengur litið á dómstólana sem algjörlega sjálfstæða og óháða framkvæmdavaldinu. Og þessari aðferð við skipanina verður að breyta ef við ætlum að tala um Ísland sem réttarríki áfram.

Hins vegar snýst þetta í mínum huga ekki um persónur og ég óska Jóni Steinari, nýskipuðum hæstaréttardómara, velfarnaðar í þessu nýja starfi,“ sagði Eiríkur.

- Í ljósi þess að með þér var sérstaklega mælt hyggst þú þá bregðast við því að einhverju leyti?

„Ég leitaði réttar míns síðast þegar dómari var skipaður og fékk álit umboðsmanns Alþingis á því að sú skipan hefði verið ólögmæt. Mér sýnist að Hæstiréttur hafi tekið fullt tillit til þessa álits þegar hann gekk frá sinni umsögn. En settur dómsmálaráðherra hefur virt þetta álit að vettugi, sýnist mér. Þess vegna sé ég nú ekki að það þjóni neinum tilgangi að leita réttar síns.

Hins vegar nefni ég það, að umboðsmaður Alþingis hefur beint þeim tilmælum til Alþingis að það breyti þeirri aðferð sem viðhöfð er við skipun dómsmálaráðherra. Og mér sýnist nú að Morgunblaðið hafi tekið undir þau tilmæli.

Þannig að ég vænti bara þess að stjórnmálamenn muni sameinast um að breyta þessu þannig sjálfstæði dómstólanna verði tryggt. Og að það verði einnig tryggt að í æðsta dómstól þjóðarinnar veljist ávallt þeir hæfustu lögfræðingar sem völ er á hverju sinni,“ svaraði Eiríkur Tómasson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert