Fundu spor við jökulinn

Björgunarmenn á Sólheimajökli í gærkvöldi.
Björgunarmenn á Sólheimajökli í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Ólafsson

Björgunarsveitarmenn fundu í nótt spor á Sólheimasandi sem er talið líklegt að geti verið eftir sænska ferðamanninn sem hefur verið leitað síðan hann hringdi eftir hjálp í fyrrinótt. Þó er sleginn sá varnagli að svæðið sé mikið ferðamannasvæði og því óljóst hvort að sporin séu eftir manninn eða einhvern annan en hátt í þrjú hundruð manns voru á jöklinum í gær að sögn Sveins K. Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli.

TF Gná þyrla Landhelgisgæslunnar var að fara í loftið nú upp úr klukkan níu til leitar en gert er ráð fyrir að TF Líf taki við um hádegisbilið. Um 80 manns hafa leitað mannsins í nótt en álíka stór hópur hvíldi og tók við nú milli klukkan sjö og átta og hefur verið að bætast við í leitina síðan.

Veðurspá er þokkaleg á leitarsvæðinu nú fyrir hádegi en eftir það er spáð versnandi veðri og má búast við slagveðri á jöklinum síðar í dag.

Sporin greinileg

Sporin sem nú er verið að rekja ná ekki upp á Sólheimajökul heldur eru á svæðinu fyrir neðan. Þegar spurt er hvers vegna þessi spor voru valin umfram önnur á svæðinu segir Sveinn að þau hafi verið greinileg en ekkert sem segi að þau hafi verið eftir sænska ferðamanninn frekar en einhvern annan. Þeim verði hins vegar fylgt eftir til að sjá hvert þau leiða.

Eftir að bíll Svíans fannst við sporð Sólheimajökuls síðdegis í gær var leitinni beint þangað. Kristinn sagði að þar ríktu allt aðrar aðstæður en á Fimmvörðuhálsi. Leitin á skriðjöklinum krefðist vanra fjallabjörgunarmanna.

„Þar er gríðarlega sprunginn skriðjökull, mikið af svelgjum og sprungum. Leitarmenn þurfa að vera á mannbroddum og með ísaxir. Menn þurfa að fara mjög varlega því þetta er hættulegt,“ sagði Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem var á svæðinu ásamt fjölda liðsmanna björgunarsveitanna í gærkvöldi. Hann sagði að svona jökull yrði seint leitaður til fulls. Til þess þyrfti að síga í hverja sprungu og svelg sem tæki langan tíma.

Leit á jöklinum haldið áfram

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert