Blóðgjöf ódýr en vel þegin jólagjöf

Ólafur Helgi Kjartansson formaður Blóðgjafafélagsins gaf blóð í 150. skipti …
Ólafur Helgi Kjartansson formaður Blóðgjafafélagsins gaf blóð í 150. skipti í morgun. mbl.is/Júlíus

„Þörfin er talsverð, það hafa færri einingar skilað sér inn í Blóðbankann miðað við í fyrra og það gildir jafnt um bankann í Reykjavík, á Akureyri og blóðbankabílinn," segir Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi og formaður Blóðgjafafélagsins. Ólafur Helgi gaf sjálfur sína 150. blóðgjöf í morgun.

Aðventan er annasamur tími og hefur reynst erfitt að virkja fólk til að gefa blóð, en þörfin er til staðar og ekki síst í blóðflokkunum O+ og O- sem eru þeir algengustu á Íslandi. „Nú er það ljóst að til þess að það náist að skila 70 einingum á dag, og það er það sem sjúklingarnir þarfnast, þá þarf aðeins að herða á," segir Ólafur Helgi. „Það gleymist oft þegar rætt er um blóðgjafir að þeir sem skipta máli eru þeir sem fá blóðið. Í dag er þetta orðið þannig að það er mikið um krabbameinssjúklinga sem njóta þessara afurða, og langveik börn. Svo koma auðvitað alltaf upp slys og aðgerðir."

Körlum er heimilt að gefa blóð á þriggja mánaða fresti en konum á fjögurra mánaða fresti og tekur því sinn tíma að ná að gefa 150 sinnum. „Ég er búinn að vera að síðan í mars 1972." segir Ólafur Helgi sem náði þessum áfanga í morgun. Hann hefur því gefið blóð í tæp 40 ár, stopult í fyrstu en á þriggja mánaða fresti að jafnaði frá 1974. „Ein ástæðan er sú að á árunum í kringum 1974 og 1975 voru bæði foreldra minna undir það sett að vera í miklum aðgerðum og þá lofaði ég sjálfum mér að gera þetta á meðan ég hef heilsu til."

Blóðbankinn er lokaður á föstudögum en á mánudögum og fimmtudögum er opið til 19 og til 15 þriðjudaga og miðvikudaga. „Þetta er í raun og veru afskaplega ódýr jólagjöf," segir Ólafur Helgi. „En hún er líka mjög vel þegin, af fólki sem við þekkjum kannski ekki, en vitum að þarf á því að halda."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert