Gert verði ráð fyrir „ætluðu samþykki“

Fjöldi Íslendinga hefur fengið líffæri að gjöf
Fjöldi Íslendinga hefur fengið líffæri að gjöf

Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að velferðarráðherra verði falið að láta semja frumvarp sem geri ráð fyrir „ætluðu samþykki“ við líffæragjafir í stað „ætlaðrar neitunar“, þannig að látinn einstaklingur verði sjálfkrafa líffæragjafi nema hinn látni hafi látið í ljós vilja til hins gagnstæða.

Í greinargerð með tillögunni segir að í íslenskum lögum sé gert ráð fyrir „ætlaðri neitun“ og þurfi því að afla samþykkis náinna ættingja við líffæragjafir, oft ættingja sem viti ekki hug einstaklingsins sem í hlut á. „Flutningsmenn telja réttara að fara sömu leið og farin er í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og fleiri löndum þar sem gert er ráð fyrir „ætluðu samþykki“ einstaklinga fyrir líffæragjöf en neiti aðstandendur líffæragjöf við lát einstaklings er þó tekið tillit til þeirrar óskar.“

Ekki er þó lagt til að gengið verði eins langt og í Austurríki og Belgíu þar sem ættingjar geta ekki haft nein áhrif á hvort líffæri er tekið úr einstaklingi eða ekki. „Rannsóknir sýna að nær undantekningarlaust virða ættingjar ósk einstaklinga um líffæragjafir, þ.e. að líffæri er gefið ef hinn látni hefur viljað gefa líffæri eða hefur ekki sett sig upp á móti því svo vitað sé. „Ætlað samþykki“ fyrir líffæragjöf mun því auðvelda ákvarðanatöku aðstandenda.“

Þá er vísað í rannsókn sem gerð var á brottnámi líffæra til ígræðslu frá látnum gjöfum á Íslandi á árunum 1992–2002. Þar kom fram að á tímabilinu fóru fram 32 líffæratökur hér á landi, 26 á gjörgæsludeild í Fossvogi, fjórar á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut og tvær á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Tekin voru 62 nýru, 25 lifrar, 8 hjörtu og 14 lungu, samtals 109 líffæri, eða 11 árlega. Orsök andláts var í 56% tilfella heilablæðing, 22% höfuðáverki, 9% heilablóðfall og hjá 13% önnur orsök.

„Mesta athygli vakti að samþykki fyrir líffæragjöf var einungis veitt í 60% tilvika þar sem óskað var eftir henni. Þannig neituðu ættingjar í 40% tilvika að gefið yrði líffæri úr látnum einstaklingi og tíðni neitunar jókst eftir því sem leið á tímabilið, öfugt við það sem ætla mætti.“ Flutningsmenn telja því mikilvægt að auka umræðu og fræðslu um líffæragjafir og að löggjöf verði breytt þannig að gert verði ráð fyrir „ætluðu samþykki“ einstaklinga við líffæragjafir. Flutningsmenn telja að verði framangreind leið ekki farin sé næstbesta leiðin að bjóða almenningi að láta skrá sig sem líffæragjafa í ökuskírteini sínu, eins og gert er t.d. í Ástralíu. Þannig væri hægt að koma vilja einstaklinga á framfæri með auðveldum hætti þótt enn auðveldara sé að fara þá leið sem hér er lögð til, það er að gera ráð fyrir „ætluðu samþykki“,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert