Forvirkar rannsóknir gegn barnaníði

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, var flutningsmaður þingsályktunartillögu um forvirkar rannsóknarheimildir.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, var flutningsmaður þingsályktunartillögu um forvirkar rannsóknarheimildir. mbl.is/Ómar

Mikilvægt er að lögreglu verði fengnar heimildir til forvirkra rannsókna hið fyrsta sem lið í baráttunni gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi á Íslandi, þ.á m. barnaníð. Um þetta sammæltust Siv Friðleifsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í umræðum á Alþingi fyrir stundu.

Siv Friðleifsdóttir var í febrúar 2011 flutningsmaður þingsályktunartillögu um að lögreglu verði veittar heimildir til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Hún nýtti tækifærið í dag til að vekja athygli á því máli að nýju þegar rætt var um fullgildingu Evrópuráðssamnings um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun, á þingfundi nú fyrir hádegi.

„Það er mikilvægt að við heimilum lögreglu að stunda, ef á þarf að halda, forvirkar rannsóknaraðgerðir," sagði Siv. Hún benti á að slíkar heimildir væru í lögum annars staðar á Norðurlöndum og í flestum Evrópuríkjum, en ekki á Íslandi, sem væri fáránlegt.

Þorgerður Katrín var á sama máli og sagði að í samhengi við vernd barna gegn kynferðisbrotum væri brýnt að allsherjar- og menntamálanefnd fengi tillöguna um forvirkar rannsóknarheimildir til umfjöllunar sem fyrst. Því jafnvel þótt slíkar heimildir vörðuðu fleiri mál snertu þær m.a. þá hræðilegu glæpi sem misnotkun á börnum væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert