Vannæring barna vaxandi vandamál

Reuters

„Ef stjórnvöld í heiminum, fara ekki að standa við skuldbindingar sínar um að sporna við matvælakreppu og vannæringu heimsins, má áætla að 450 milljónir barna í heiminum muni líða fyrir líkamlegan og andlegan vanþroska af völdum vannæringar á næstu 15 árum,“ segir í fréttatilkynningu frá Barnaheill en ný skýrsla samtakanna um vannæringu barna í heiminum er nú komin út.

Fram kemur ennfremur í tilkynningunni að þó vannæring sé undirliggjandi ástæða þriðjungs alls barnadauða í heiminum hafi hún ekki fengið sömu athygli og fjármagn og til að mynda alnæmi eða malaría. „Það þýðir að á meðan tekist hefur að draga úr barnadauða af völdum malaríu um þriðjung frá árinu 2000, hafa tölur um vannæringu barna í Afríku einungis lækkað um innan við 0,3%.“

Í skýrslunni segir meðal annars að nær helmingur fjölskyldna á Indlandi, í Nígeríu, Pakistan, Perú og Bangladesh verði að skera niður við sig í mat og börn séu látin vinna til að hjálpa fjölskyldum sínum að afla matar.

Þá segir meðal annars að á hverri klukkustund dagsins deyi 300 börn af völdum vannæringar og þá oft vegna þess að þau hafa ekki aðgang að grunnfæði sem litið sé á sem sjálfsagðan hlut í ríkari löndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert