Ekki slíkur klækjarefur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, í Þjóðmenningarhúsinu í morgun.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, í Þjóðmenningarhúsinu í morgun. mbl.is/Kristinn

„Ég er ekki slíkur klækjarefur að mér hafi verið efst í huga á þessum tímapunkti samsæri gegn viðskiptaráðherra,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, í vitnaleiðslum fyrir Landsdómi í morgun.

Þar var hún spurð að því hvers vegna Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, hefði ekki verið hafður með í ráðum Glitnishelgina örlagaríku í lok september 2008.

„Þetta voru dramatískir atburðir. Ég var í New York, ég hafði greinst með heilaæxli,“ sagði Ingibjörg Sólrún.

„Ég játa það fúslega að ég var ekki með hugann við íslenska fjármálakerfið.  Á laugardaginn var ég í samtölum við lækna, sunnudaginn 28. október átti ég fund með lækni um að ég færi í aðgerðina daginn eftir.“

Hún segir að síðar þann dag hafi hún fengið símtal frá Gesti Jónssyni lögmanni, þar sem hann sagði henni að verið væri að funda um stöðu bankanna, en enginn fulltrúi Samfylkingarinnar væri á staðnum. 

Eftir það hefði hún hringt í Geir H. Haarde forsætisráðherra, sem hefði skýrt henni frá því að Glitnismenn væru í vandræðum og að hún þyrfti að útvega staðgengil sinn á fundinn.

„Ég íhugaði Jóhönnu Sigurðardóttur eða Össur Skarphéðinsson, þau gætu verið fulltrúar Samfylkingarinnar á staðnum. Ég hringdi í Össur og bað hann um að taka við keflinu af mér. Ég vissi ekki hvernig mínum málum yrði hagað eftir þennan dag.“

Spurð hvort rétt sé haft eftir Össuri að hún hafi bannað honum að kalla Björgvin til með orðunum „Keep it under wraps“ sagði hún að þar væri ekki rétt með farið.

„Allir sem þekkja mig vita að þetta er ekki mitt orðfæri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert