Stefán sækir um hjá Samgöngustofu

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Ómar

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er á meðal umsækjenda sem hafa sótt um stöðu forstjóra Samgöngustofu, en innanríkisráðuneytið auglýsti embættið laust til umsóknar 6. júní sl.

Stefán staðfestir þetta í samtali við mbl.is. 

„Það er ekkert annað í gangi en að ég er að sækja um nýtt starf og það væri gaman ef það gæti gengið eftir, en það eru margir í hópi umsækjenda og margir mjög öflugir,“ segir Stefán. Aðspurður segist hann ekki vera að láta af störfum hjá lögreglunni, þ.e.a.s. nema hann verði ráðinn til starfa hjá Samgöngustofu.

Árið 2006 skipaði dómsmálaráðherra Stefán, sem var þáverandi skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, í embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins frá og með 15. júlí sama ár. Hann hefur því gegnt embætti lögreglustjóra í nær átta ár.

Umsóknarfrestur er til 22. júní. Hermann Guðjónsson, sem gegnt hefur embættinu, óskaði eftir lausn frá störfum og að ósk innanríkisráðherra mun hann gegna embættinu þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn.

Samgöngustofa tók til starfa 1. júlí 2013 við flutning á stjórnsýslu- og eftirlitsverkefnum Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar, Umferðarstofu og Vegagerðar yfir í nýja stofnun sem fer með stjórnsýslu samgöngumála og annast eftirlit með samgöngugreinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert