Lögregluskóli í lausu lofti

Nemar í Lögregluskólanum æfa umferðarstjórnun og hraðamælingar.
Nemar í Lögregluskólanum æfa umferðarstjórnun og hraðamælingar. mbl.is/Júlíus

Ekki hafa verið teknir inn nýir nemendur í Lögregluskóla ríkisins í vetur þar sem ekki hefur verið ákveðið hvernig lögreglunámi verður hagað í framtíðinni. Skólastjóri skólans segir starfsemina í lausu lofti og að starfsfólk hafi áhyggjur af framtíðinni á meðan ákvörðun liggur ekki fyrir.

Eftir að starfshópur sem fór yfir skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins og framtíðarskipan lögreglumenntunar lagði fram tillögur sínar í september var ákveðið að ekki yrðu teknir inn nýir nemendur í skólann fyrr en ákvörðun lægi fyrir um framhaldið. Að öllu jöfnu væru nýir nemar teknir inn í janúar. Starfshópurinn lagði til að lögreglunámið yrði fært upp á háskólastig og gerður yrði samningur við einhvern háskólanna um að hýsa það. Enn hefur þó ekki verið tekin nein ákvörðun um hvað verður um námið af hálfu innanríkisráðuneytisins.

„Mér líst svo sem ekkert illa á að fá tækifæri til að þróa þetta nýja háskólanám en mér finnst við vera í lausu lofti hérna í skólanum. Við bíðum eftir ákvörðun. Það er starfsfólk hér sem er auðvitað áhyggjufullt um framtíðina, hvað verður um skólann og hvaða verkefnum við ætlum að sinna. Það þarf að taka ákvörðun svo við vitum hvert við stefnum,“ segir Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins. Hann átti sæti í starfshópinum sem skilaði tillögu sinni til innanríkisráðuneytisins.

Þó að ljóst sé að verkefni skólans dragist saman á næsta ári þar sem að nýir nemendur verða ekki teknir inn segir Karl Gauti starfsmenn skólans ekki munu sitja auðum höndum.

„Skólinn sinnir öðrum hlutverkum líka. Eina hlutverk okkar er ekki að útskrifa lögreglunema. Við sjáum um sí-, sér- og framhaldsmenntun lögreglumanna og hér eru fjölmörg námskeið í gangi og önnur verkefni sem við sinnum fyrir lögregluna. Við munum ekki sitja auðum höndum, en það er ekki góð tilfinning að óvissa ríki mikið lengur um hvernig menntun lögreglumanna eigi að vera háttað strax á næsta ári,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert